Greinar

Lýðheilsuáhrif reglulegra göngutúra

33662519 m

Enn á ný hafa vísindamenn sýnt fram á hversu auðvelt er að bæta heilsuna. Svo virðist sem hægt sé að gera það án lyfja, fæðubótarefna og annarra hjálpartækja. 

Nýjar rannsóknarniðurstöður sem birtar voru í tímaritinu American Journal of Preventive Medicine sýna að reglulegir, jafnvel stuttir, göngutúrar tengjast langlífi. 

Skoðuð voru gögn 62 þúsund karla og 77 þúsund kvenna sem tóku þátt i faraldsfræðilegri rannsókn í Bandaríkjunum. Meðalaldur karlanna var 71 ár og kvennanna 69 ár. Þáttakendunum var fylgt eftir í 13 ár.

Tæplega 6% karlanna og tæplega 7% kvennanna stunduðu enga regubundna hreyfingu. Þessir einstaklingar voru 26% líklegri til að deyja á rannsóknartímabilinu en einstaklingar sem stunduðu reglulega göngutúra. Göngurnar tengdust lægri dánartíðni vegna öndunarfærasjúkdóma, hjarta-og æðasjúkdóma og krabbameina.

Þessar jákvæðu niðurstöður standa óbreyttar eftir að leiðrétt hefur verið tölfræðilega fyrir þáttum eins og reykingum, offitu og langvinnum sjúkdómum.

Rannsóknin bendir til þess að betra sé að ganga meira en minna. Hins vegar sýnir hún glögglega að ekki þarf að ganga mikið til að auka lífslíkur. Þannig virðist nóg að ganga tvær klukkustundir á viku til að bæta heilsuna umtalsvert. 

Aldursstöðluð dánartíðni þeirra sem ekki hreyfðu sig reglulega var 4.293 per 100.000 einstaklinga á rannsóknartímabilinu. Hins vegar var aldursstöðluð dánartíðni þeirra sem hreyfðu sig lítllega 2.851 per 100.000. Munurinn er 1442 dauðsföll per 100.000 einstaklinga á 13 ára tímabil sem verður að teljast ótrúlega mikið. 

Faraldsfræðileg rannsókn sem þessi getur ekki sannað orsakasamband. Hins vegar eru niðurstöðurnar svo sláandi að ekki er annað hægt að álykta en að lýheisuáhrif göngutúranna séu umtalsverð. Miðlæg offita og iðrafita

16683151 m

Offita er gjarnan skilgreind sem líkamsþyngdarstuðull (BMI) yfir 30. Fylgni er á milli hás líkamsþyngdarstuðuls og háþrýstings, blóðfituraskana, sykursýki og hjarta-og æðasjúkdóma.

Þó ber að hafa í huga að notkun líkamsþyngdarstuðuls til að skilgreina offitu hefur ýmsa galla.  Sem dæmi má nefna að líkamsþyngdarstuðull tekur ekki tillit til líkamsbyggingar né hlutfalls vöðvamassa og fitu.

Komið hefur í ljós að sumt fólk með háan líkamsþyngdarstuðul hefur ekki hin klassísku efnaskiptavandamál sem oft tengjast offitu. Horfur þessarra einstaklinga eru því yfirleitt góðar.

Hins vegar hafa margir einstaklingar með eðlilegan eða lítið hækkaðan líkamsþyngdarstuðul sömu efnaskiptavandamál og oft tengjast offitu. Á ensku hefur þetta fyrirbæri verið kallað MONW (metabolically obese normal weight)(1).

Iðrafita

Margar rannsóknir benda til að líkamsbygging og dreifing fitu sé mikilvægari þáttur fyrir heilsu okkar en líkamsþyngd eða heildarmagn fitu í líkamanum. Þekkt er að konur hafa yfirleitt hærri fituprósentu en karlar. Samt er körlum mun hættara við fylgikvillum offitu en konum.

Svo virðist sem fitusöfnun umhverfis líffærin okkar, aðallega í kviðarholi, gegni lykilhlutverki varðandi efnaskiptatruflanir sem tengjast offitu. Þessi fita kallast iðrafita (visceral fat).

Nýleg myndgreiningartækni hefur gert okkur kleift að skilja iðrafitu frá fitu sem staðsett er undir húð (subcutaneous fat).

Of mikil iðrafita (visceral obesity) er ástand sem skapast þegar óhöfleg fitusöfnun hefur orðið umhverfis innri líffæri, aðallega í kviðarholi.

Fjöldi vísbendinga hafa komið fram um að iðrafita sé hættulegri en önnur fita. Rannsóknir á einstaklingum með offitu sýna að þeim sem hafa hæst hlutfall iðrafitu er hættara við að fá sykursýki, blóðfituraskanir og hjarta-og æðasjúkdóma en þeir sem hafa lægra hlutfall iðrafitu (2).

Miðlæg offita (central obesity) lýsir óhóflegri fitusöfnun um kvið. Þótt eitthvað af þessarri fitu sé staðsett undir húð má oftast gera ráð fyrir að fólk með miðlæga offitu hafi jafnframt of mikla iðrafitu.

 Miðlæg offita er skilgreind sem mittismál

≥ 102 cm hjá körlum

≥ 89 cm hjá konum


Sögulegt yfirlit

Árið 1947 kynnti Jean Vague sem var prófessor við háskólann í Marseille fyrstur manna rannsóknarniðurstöður sem bentu til þess að dreifing og staðsetning fitu hefði meira forspárgildi fyrir efnaskiptatruflanir og ýmsa sjúkdóma en heildarmagn fitu í líkamanum (3).

Vague lýsti tveimur tegundum líkamsbyggingar. "Android" offita eða eplalögun lýsir fitusöfnun í efrihluta líkamans, aðallega á kvið. "Gynoid" offita eða perulögun lýsir fitusöfnun um lendar og læri. Síðarnefnda gerðin er mun algengari meðal kvenna en karla.

obesity-37

Dreifing líkamsfitu getur haft mikil áhrif á heilsu okkar. Fita umhverfis líffærin í kviðarholi er líklegri til að valda efnaskiptavandamálum en fita sem situr undir húð, t.d. á lærum og rasskinnum.

Í fyrstu efuðust margir um kenningar Vageues en seinni tíma rannsóknir eru taldar staðfesta að hann hafði rétt fyrir sér.

Árið 1984 sýndi mjög stór sænsk faraldsfræðileg rannsókn fram á að fylgni var á milli mittisummáls og hættunnar á að fá kransæðasjúkdóm (4,5). Síðar sýndu sömu vísindamenn fram á tengsl miðlægrar offiitu og sykursýki. 

Miðlæg offita og heilsufar

Rannsóknir hafa leitt í ljós að miðlæg offita tengist aukinni hættu á sykursýki af tegund 2, blóðfituröskunum, háum blóðþrýstingi, hjarta-og æðsajúkdómum og sumum tegundum krabbameina. Flestar þessarra rannsókna hafa stuðst við mælingar á mittismáli til að skilgreina miðlæga offitu en nýlegri rannsóknir byggja gjarnan á mælingum á iðrafitu með myndgreiningartækni.

Insúlínviðnám og sykursýki af tegund 2                                              Insúlínviðnám er skilgreint sem skert svörun frumna líkamans við áhrifum insúlíns. Einstaklingar með insúlínviðnám hafa aukna hættu á að fá sykursýki af tegund 2.

Margir einstaklingar með miðlæga offitu hafa insúlínviðnám og sykursýki af tegund 2. Rannsóknir sýna að miðlæg offita eykur líkurnar á sykursýki meira en hár líkamsþyngdarstuðull (6). 

Blóðfituraskanir                                                                        Blóðfituraskanir eru algengar meðal einstaklinga með miðlæga offitu. Oft má finna hátt magn þríglýseríða í blóði og lágt magn HDL kólesteróls (góða kólesterólið). 

Þeir sem hafa miðlæga offitu hafa oft á tíðum ekki sérlega háa þéttni kólesteróls í blóði og LDL kólesteról (“vonda” kólesterólið) er oft innan viðunandi marka. Hins vegar er fjöldi LDL agna oft hár og agnirnar eru oftar litlar en stórar. Aukinn fjöldi LDL agna og hátt hlutfall smárra agna eykur líkurnar á hjarta-og æðasjúkdómum (7). Þetta endurspeglast einnig í hárri þéttni af apolipoprotein B sem er sterkur áhættuþáttur fyrir hjarta-og æðasjúkdóma.

Háþrýstingur 

Hár blóðþrýstingur (háþrýstingur) er þekktur áhættuþáttur hjarta-og æðasjúkdóma. Háþrýstingur er algengari meðal einstaklinga með offitu en þeirra sem hafa eðlilega líkamsþyngd. 

Rannsóknir hafa leitt í ljós að miðlæg offita metin með mælingu á mittismáli tengist aukinni hættu á háþrýstingi (8).

Hjarta-og æðasjúkdómar

Fylgni er á milli miðlægrar offitu og hjarta-og æðasjúdóma, óháð hefðbundnum áhættuþáttum og líkamsþyngdarstuðli (9). Þannig hefur iðrafita sterkara forspárgildi fyrir hjarta-og æðasjúkdóma en offita skilgreind sem hár líkamsþyngdarstuðull.

Þekkt bandarísk rannsókn (Nurses’ Health Study) sýndi að hættan á hjarta-og æðasjúkdómum var jafnmikil meðal kvenna með offitu og kvenna sem höfðu eðlilega líkamsþyngd en aukna kviðfitu (10)

Svokölluð INTERHEART rannsókn sýndi að miðlæg offita hafði sterkari tengsl við hættu á hjartaáföllum en  almenn offita skilgreind sem hækkaður líkamsþyngdarstuðull.

Krabbamein

Faraldsfræðilegar rannsóknir hafa sýnt fram á fylgni á milli offitu og aukinnar hættu á mörgum tegundum krabbameina  (11).

Sambærileg gögn hafa sýnt fylgni á milli miðlægrar offitu og aukinnar hættu á krabbameini í ristli eða endaþarmi, brjóstakrabbameini meðal kvenna, blöðruhálskrabbameini og krabbameini í vélinda. 

Hvað veldur miðlægri fitusöfnun?

Orsakir miðlægar offitu eru ekki að fullu þekktar. Hvers vegna safna sumir einstaklingar iðrafitu en aðrir ekki?

Aldur og kyn skiptir máli. Ungt fólk er líklegra til að safna fitu undir húð (subcutaneous fat) en iðrafitu. Hlutfallið á milli fitu undir húð og iðrafitu minnkar yfirleitt með hækkandi aldri. Þá hafa konur yfirleitt meiri fitusöfnun undir húð en karlar á sama aldri.

Karlmenn eru líklegri til að safna fitu á efri hluta líkamans á meðan konur eru líklegri til að safna fitu á læri og rasskinnar.

Kynhormón virðast skipta máli. Karlmenn með lágt testósterón í blóði hafa yfirleitt meiri iðarafitu en þeir sem hafa eðlileg testósterón gildi. 

Rannsóknir sýna einnig að erfðaþættir hafa áhrif á hlutfall fitusöfnunar undir húð og iðrafitu (12)

Þáttur mataræðis

Tiltöluega fáar rannsóknir hafa skoðað þátt mataræðis í tilurð miðlægrar offitu. 

Svokölluð PREDIMED rannsókn sýndi að Miðjarðarhafsmataræði með viðbættum hnetum leiddi til minni miðlægrar offitu og lægra magns þríglýseríða og LDL agna í blóði borið saman við hefðbundið fituskert mataræði (13). 

Fylgni er á milli neyslu á sykruðum gosdrykkjum og offitu og sykursýki af tegund 2. Ein rannsókn hefur sýnt að neysla á frúktósa eykur iðrafitu og insúlínviðnám meira en neysla á glúkósa (14)

Þáttur hreyfingar

Sýnt hefur verið fram á að fylgni er á milli reglubundinnar líkamshreyfingar og minni hættu á miðlægri offitu. Stór samantekt á fyrirliggjandi rannsóknum sýndi að fylgni var á milli reglubundinnar hreyfingar og minni miðlægrar offitu, jafnvel í rannsóknum sem ekki sýndu áhrif á líkamsþyngd (15).

Hvers vegna og hvernig getum við minnkað iðrafitu?

Þar sem sterk fylgni er á milli miðlægrar offitu og ýmissa sjúkdóma er líklegt að aðferðir sem draga úr uppsöfnun iðrafitu bæti heilsu okkar.

Allar aðferðir sem leiða til þyngdartaps eru líklegar til þess að minnka miðlæga fitusöfnun.

Aðferðir sem draga úr iðrafitu án þess að valda teljandi þyngdartapi að öðru leyti gætu verið gagnlegar. Hins vegar er ljóst að erfitt er að minnka einungis iðrafitu án þess að hafa áhrif á fitusöfnun annars staðar í líkamanum.

Nýleg samantekt á rannsóknum sem hafa skoðað þetta vandamál benda til þess að flestar megrunaraðferðir leiði til minnkunar á iðrafitu svo og fitusöfnun undir húð og að engar aðferðir séu til sem minnki einungis miðlæga fitusöfnun (16).

Markaðssetning megrunaraðferða gengur oft út á að sannfæra viðskiptavininn um að viðkomandi aðferð muni minnka miðlæga fitusöfnun sérstaklega. Nokkuð ljóst er að slíkar fullyrðingar eru ekki studdar af vísindalegum rannsóknum.

Minni neysla á kolvetnum leiðir oftast til lækkunar á þríglýseríðum í blóði. Jafnframt minnkar fjöldi smárra LDL agna og heildarfjöldi agna minnkar sem talið er jákvætt gagnvart hættunni á hjarta-og æðasjúkdómum. Þá getur lágkolvetnamataræði haft ýmis önnur jákvæð áhrif á efnaskipti einstaklinga með miðlæga offitu og sykursýki af tegund 2 (17). 

Eins og áður var nefnt getur Miðjarðarhafsmataræði minnkað iðrafitu og bætt ýmsa efnaskiptaþætti sem tengjast slíkri fitusöfnun. 

Margir sérfræðingar telja að reglubundin líkamsrækt sem slík leiði ekki til þyngdartaps. Hins vegar hefur reglubundin líkamsrækt ýmis jákvæð áhrif á efnaskipti og heilsu, óháð þyngdartapi.

Einstaklingar með offitu geta bætt heilsu sýna án þess að léttast. Að mínu mati á reglubundin líkamsrækt ávallt að vera hluti af meðferð þeirra sem glima við miðlæga offitu.

Hin eina sanna Meistaradeild

Er hollt "mataræði" bara fyrir konur?

Síðustu mánuði hef ég fengið tækifæri til að halda fyrirlestra á nokkrum ráðstefnum og málþingum um tengsl mataræðis og heilsu. Mér til mikillar ánægju hafa þessi mannamót verið afar vel sótt. Þetta endsurspeglar mikinn áhuga fólks á forvörnum og mikilvægi heilbrigðs lífernis til að viðhalda góðri heilsu og draga úr líkum á sjúkdómum.  

Eitt atriði sem vakið hefur athygli mína og annarra sem þátt hafa tekið í þessum málþingum er að mikill meiri hluti þátttakenda eru konur. Þetta hefur orðið mörgum okkar umhgsunarefni. Lífsstílssjúkdómar eru ekki algengari meðal kvenna en karla. Forvarnir eru ekki síður mikilvægar fyrir karla en konur. 

Hvers vegna gefa karlar sér minni tíma en konur til að auka þekkingu sína á miklilvægi heilbrigðs lífsstíls og mataræðis fyrir líðan og heilsu? Finnst þeim þetta vera hlutir sem konur þurfa bara að vita. Hefur þetta með testósterón að gera? Höfðar mataræði ekki til karlmennskunnar? Vita karlar kannski allt sem þarf að vita? Eða eru þeir kannski bara upp í sófa með pizzu og bjór að horfa á Meistaradeildina í fótbolta? 


Hin eina sanna Meistaradeild

Nýlega voru birtar fyrstu niðurstöður umfangsmikillar könnunar Landlæknisembættisins á heilsu og líðan Íslendinga. Niðurstöðurnar voru bornar saman við niðurstöður könnunar sem náði til ársins 2007. Athyglisvert er að bera saman íslenska karla og konur þegar kemur að mataræði. Hvort kynið skyldi hafa vinninginn þegar kemur að hollustunni, hinni einu sönnu Meistaradeild.

Yfirleitt er talið jákvætt fyrir heilsu og holdarfar að borða morgunmat. Myndin hér að neðan sýnir að fleiri konur en karlar borða reglulega morgunmat. Staðan: eitt núll fyrir konum.


Fjölmargar rannsóknir sýna að neysla ávaxta og berja er holl. Myndin hér að neðan sýnir að fleiri konur en karlar borða ávexti eða ber einu sinni á dag eða oftar. Tvö núll fyrir konum.

Neysla skyndibita er almennt talin neikvæð þegar kemur að hollustu. Hér að neðan má sjá að fleiri karlar en konur borða skyndibita einu sinni í viku eða oftar. Þrjú núll fyrir konum.     


Fiskneysla telst til hollustu. Á myndinni hér að neðan má sjá að heldur fleiri karlar en konur borða fisk eða fiskrétti tvisvar sinnum í viku eða oftar. Karlarnir fá því loks eitt stig. Þrjú eitt fyrir konunum.


Neysla sykraðra gosdrykkja telst til óhollustu. Nokkuð kemur á óvart á myndinni hér að neðan hversu miklu fleiri karlar en konur neyta slíkra drykkja fjórum sinnum í viku eða oftar. Fjögur eitt fyrir konunum.


Myndin hér að neðan sýnir að fleiri konur en karlar telja sig reyna að borða hollan mat. Leikslok: Fimm eitt fyrir konum.


Ofangreindar niðurstöður benda eindregið til þess að íslenskar konur neyti almennt hollari fæðu en íslenskir karlar. Þessi mikli munur á konum og körlum þegar kemur að mataræði vekur óneitanlega athygli. Eru konur skynsamari en karlar? Hafa konur betri stjórn á mataræði sínu en karlar? Eða eru karlarnir bara uppteknir í örðum pælingum? Ég kann ekki svarið.

Nokkuð ljóst er að konur vinna yfirburða sigur í hinni einu sönnu Meistaradeild, hollustudeildinni. Fimm eitt fyrir konunum er slæm útreið fyrir karlana. Vonandi koma þeir betur undirbúnir til leiks í næstu könnun.

Hvað er "non-HDL kólesteról"?

19514454 m

Ef þú lætur mæla blóðfiturnar þínar er leikur einn að reikna út "non-HDL-kólesteról". Þetta gildi segir oft meira um hættuna á hjarta-og æðasjúkdómum en hefðbundin gildi eins og heildarkólesteról eða hið svokallaða "vonda" kólesteról.

Þrátt fyrir þetta sýndi nýleg bandarísk rannsókn að þar í landi kunna 44 prósent lækna ekki að reikna út "non-HDL-kólesteról". Hvort íslenskir læknar standa bandarískum kollegum sínum framar hvað þetta varðar skal látið ósagt.

Algengt er að stuðst sé við mælingar á blóðfitu þegar verið er að meta hættuna á að við fáum hjarta-og æðasjúkdóma. Þegar blóðfitur eru mældar er oftast mæld heildarþéttni kólesteróls í bóði, auk þéttni HDL-kólesteróls og þríglýseríða. Svokallað LDL-kólesteról er síðan reiknað út frá þessum tölum samkvæmt sérstakri formúlu.

Lípóprótín

Fita er ekki vatnsleysanleg. Til þess að fita geti ferðast um í blóðinu er henni pakkað inn í svokölluð lípóprótín sem samanstanda af prótínum og mismunandi gerðum fitu. 

Líkaminn framleiðir margar mismundandi gerðir lípóprótina. Sum þeirra hafa tilhneigingu til að leita inn fyrir æðaþel slagæðanna og inn í æðavegginn þar sem þau virðast stuðla að sjúkdómsferli (atherosclerosis) sem oft leiðir til slagæðasjúkdóma. Önnur lípóprótín virðast hins vegar hafa verndandi áhrif og gegna mögulega einhvers konar hreinsihlutverki. Dæmi um þetta er HDL (high density lípóprótín).

Þéttni kólesteróls í blóði segir til um heildarmagn kólesteróls sem bundið er í lípóprótínum. Slík mæling segir ekki til um fjölda lípóprótína né magn þeirra. Hins vegar er hægt er að mæla fjölda lípóprótina (LDL-P) og benda ýmsar rannsóknir til að sú mæling hafi meira forspárgildi um hættuna á hjarta-og æðasjúkdómum en mælingar á kólesteróli. Þessar mælingar eru þó ekki enn gerðar hér á landi.

LDL kólesteról

Þegar blóðfitur eru mældar er oftast horft mest á LDL-kólesteról við mat á hættunni á hjarta-og æðasjúkdómum. Jafnframt er LDL-kólesteról það gildi sem oftast er leitast við að lækka því fjöldi rannsókna hefur sýnt fylgni á milli magns LDL-kólesteróls í blóði og hættunnar á hjarta-og æðasjúkdómum. Leiðbeiningar um mataræði til að draga úr hættu á kransæðasjúkdómi beinast því oft að því að ná fram lækkun á LDL-kólesteróli. 

LDL-kólesteról gefur til kynna hversu mikið kólesteról er bundið í LDL (low density lipoprotein). Svo virðist sem LDL gegni lykilhlutverki í tilurð hjarta-og æðasjúkdóma. Hins vegar er ljóst að mörg önnur lípóprótín koma þar einnig við sögu. Því hafa margir sérfræðingar bent á að mælingar á LDL-kólesteróli endurspegli einungis að hluta til þau lípóprótín sem stuðla að æðasjúkdómum. Æskilegt væri að styðjast við mælingu sem endurspeglar þéttni allra lípóprótína sem ýta undir þetta sjúkdómsferli.

LDL-kólesteról er ekki mælt, heldur er það reiknað út frá mælingum á heildarmagni kólesteróls, HDL-kólesteróli og þríglýseríðum. Ekki er hægt að nota reikniformúluna ef magn þríglýseríða er hátt. Því kann notagildi LDL-kólesteróls að vera minna hjá einstaklingum með offitu eða efnaskiptavillu því þessir einstaklingar hafa oft hátt magn þríglýseríða í blóði og lágt HDL-kólesteról. LDL-kólesteról getur reiknast lágt við þessar kringumstæður þótt heilmikið sé til staðar af lípóprótínum sem ýta undir hættuna á hjarta-og æaðsjúkdómum. 

Non-HDL kólesteról

LDL og HDL lípóprótínin gegna mjög ólíku hlutverki. Mælingar á LDL- og HDL-kólesteróli segja því í raun sitt hvora söguna. Hátt LDL-kólesteról tengist aukinni hættu á hjarta-og æðasjúkdómum á meðan hátt HDL-kólesteról tengist minni hættu á hjarta-og æðasjúkdómum. Þess vegna er LDL-kólesteról oft kallað "vonda" kólesterólið og HDL-kólesteról oft kallað "góða" kólesterólið.

Svo virðist sem HDL hafi hreinsihlutverk og taki þátt í að flytja kólesteról frá æðavegnum á meðan LDL virðist hreinlega ýta undir sjúkdómsferlið. 

Mæling á heildarkólesteróli hefur takmarkað gildi til að meta áhættu því verið er að mæla kólesteról sem bæði er bundið LDL og HDL. Hins vegar er á einfaldan hátt hægt að draga magn HDL-kólesteróls frá heildarmagni kólesteróls. Það gildi sem þá fæst kallast "non-HDL-kólesteról". Þetta gildi endurspeglar magn kólesteróls sem bundið er lípóprótínum sem ýta undir sjúkdómsferli í slagæðunum. Rannsóknir benda til þess að non-HDL kólesteról hafi meira forspárgildi varðandi hjarta-og æðasjúkdóma en hefðbundnari mæligildi.


Non-HDL kólesteról er heildarkólesteról mínus HDL-kólesteról 

Þetta er reikniformúlan: 
Non-HDL kólesterol = Kólesteról – HDL-kólesterol

Ef kólesterólið þitt er 5.7 mmol/L og HDL-kólesterólið 1.3 mmol/L, 
þá er non-HDL kólesterólið þitt 4.4 mmol/L 


Hvað eru æskileg gildi fyrir non-HDL kólesteról?

 • Hærra en 5.7 mmol/L er alltof hátt
 • 4.9 - 5.6 mmol/L er of hátt
 • 4.1 - 4.8 mmol/L er vægt hækkað
 • 3.4 - 4.0 mmol/L er í fínu lagi
 • lægra en 3.4 mmol/L er æskilegt ef þú hefur mikla áhættu á hjarta-eða æðasjúkdómum
 • lægra en 2.6 mmol/L er æskilegt ef þú ert með þekktan hjarta-eða æðasjúkdóm

Hvernig er hægt að lækka non-HDL kólesteról?

Til að ná fram lækkun á non-HDL kólesteróli er áhrifaríkast að ástunda lífsstíl og mataræði sem lækkar þríglýseríða og hækkar HDL-kólesteról. Ef þú ert of þung/þungur er skynsamlegt að draga úr neyslu sykurs og annarra unninna kolvetna. Einnig skaltu forðast transfitu og stilla neyslu á mettaðri fitu í hóf. 

Fæða sem inniheldur mikið af omega-3 fitusýrum er oft gagnleg. Dæmi um slíka fæðu er feitur fiskur eins og lax, silungur, síld, túnfiskur og makríll. Omega-3 fæðubótarefni eru einnig valkostur.

Ef allt um þrýtur er hægt að beita lyfjameðferð til að lækka non-HDL kólesteról.

P.S. Ekki gleyma að læka okkur á Facebook

Máttur göngutúranna

3912408 m

Heilsa okkar og líðan er að miklu leyti háð athöfnum okkar og lífsstíl. Oftast er ekki flókið að grípa til aðgerða sem bæta heilsuna og draga úr líkum á sjúkdómum. Fyrsta skrefið er að átta sig á því að lífsstíllinn skiptir máli og að trúa því að við einfaldar athafnir geti skipt sköpum fyrir heilsu okkar. 

Oft ræði ég við fólk um mikilvægi reglubundinnar hreyfingar fyrir heilsuna. Stundum rek ég mig á að fólk áttar sig ekki á mikilægi líkamsræktar fyrir andlega og líkamlega líðan. Sumir telja jafnvel að það sé einhvers konar mýta að hreyfing skipti máli og að vísindalegar rannsóknir hafi ekki sýnt fram á slíkt. Hið sanna er að þetta er alrangt. Vísindarannsóknir hafa nefnilega sýnt að hreyfing getur skipt sköpum fyrir heilsu okkar.

Þegar við eldumst minnkar vöðvastyrkur og stirðleiki eykst. Líkamsrækt sem við gátum stundað þegar við vorum yngri verður okkur erfiðari og stundum óframkvæmanleg. Þá má hins vegar ekki leggja árar í bát og leggjast upp í sófa. 

Einföld hreyfing eins og göngutúrar getur haft mjög jákvæð áhrif á heilsu okkar og dregið úr hættu á sjúkdómum. Hreyfing hefur góð áhrif á blóðþrýsting og blóðfitur auk þess sem hún getur dregið úr hægfara bólguvirkni í líkamanum. Fræðilega getur þetta dregið úr hættu á krabbameinum og hjarta-og æðasjúkdómum.

Árið 1998 birtist í áhugaverð grein í The New England Journal of Medicine sem er eitt af virtustu læknatímaritum heims. Greinin lýsti niðurstöðum rannsókna sem gerðar höfðu verið á 707 karlmönnum á aldursbilinu 60-80 ára. Enginn þessarra manna reykti. Skráð var hversu langt þeir gengu á hverjum degi. Eftirfylgni stóð í 12 ár. Rannsóknin var hluti af stærra verkefni sem kallast Honululu Heart Program. 

b50-21

Myndin sýnir dánartíðni karla 60-80 ára. Lengst til vinstri eru þeir sem gengu minnst og lengst til hægri þeir sem gengu mest. Þeir sem voru mitt á milli eru í miðjunni. Hvíta súlan sýnir öll duðsföll, gráa súlan sýnir dauðsföll vegna krabbameina og svarta súlan sýnir dauðsföll vegna hjarta- og æðasjúkdóma.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru býsna sláandi. Dánartíðni var næstum tvisvar sinnum hærri meðal karlmanna sem gengu minna en 1.6 km á dag en meðal þeirra sem gengu meira en 3.2 km á dag. Eftir 12 ár voru 43.1% karlanna í fyrrnefnda hópnum látnir en aðeins 21.5 prósent karlanna í síðarnefnda hópnum. Bæði var um að ræða fækkun dauðsfalla vegna krabbameina og vegna hjarta-og æðasjúkdóma.

Tölfræðilegar aðferðir voru notaðar til að leiðrétta fyrir aðra áhættuþætti eins og aldur, blóðfitur, blóðþrýsting og sykursýki. 

Í læknisfræðinni einblínum við oft á lækningaaðferðir og lyfjameðferðir sem geta bætt heilsu, lækkað blóðþrýsting eða blóðsykur og bætt blóðfitur. Miklar framfarir hafa orðið í lyfjameðferð háþrýstings, blóðfituraskana og sykursýki. Hins vegar má ekki gleyma að einfaldar aðgerðir sem snerta líffstíl okkar geta stundum haft jafnmikil eða meiri áhrif í átt til betri heilsu. Þess vegna má Honululu rannsóknin ekki falla í gleymsku. 


Göngutúrar á íslandi

Hér á landi búum við í umhverfi þar sem göngufæri kann að vera býsna erfitt yfir vetrartíman. Hálkuslys eru algeng og fólk veigrar sér við að ganga úti sem er afar skiljanlegt. Á slíkum tímum eru mannbroddar mikilvægt öryggistæki sem sjálfsagt er að notfæra sér.

Mörg bæjarfélög á Íslandi hafa byggt fjölnota íþróttahallir. Þar er hægt að ganga á svokölluðum tartanbrautum við góðar aðstæður. Flestar þessar íþróttahaliir hafa opið fyrir almenning daglega og er aðgangur ókeypis. 

P.S. Ekki gleyma að læka okkur á FacebookKransæðastífla, lambakjöt og smjör

20275268 m

Mikil umræða um mataræði hefur átt sér stað meðal lækna og annarra sérfræðinga undanfarið. Þá hefur áhugi almennings á heilbrigðum líffstíl verið áberandi og skilningur á þýðingu mataræðis fyrir heilsu og vellíðan fer vaxandi. Næringarfræðingar, læknar og annað fágfólk tjáir sig í auknum mæli í fjölmiðlum og miðlar þar með af þekkingu sinni um þetta mikilvæga málefni. 

Nýlega birtist áhugaverð grein í Morgunblaðinu eftir Gunnar Sigurðsson lækni og Laufeyju Steingrímsdóttur næringarfræðing þar sem fjallað er um mataræði og kransæðasjúkdóma hér á landi. Gunnar og Laufey búa yfir mikilli þekkingu og reynslu á þessu sviði og hafa þau bæði skilað ómetanlegu framlagi til manneldismála hér á landi síðsutu áratugi. 

Í greininni taka þau taka sérstaklega til umfjöllunar þá miklu lækkun sem hefur orðið á dánartíðni af völdum kransæðasjúkdóma hér á landi síðustu þrjátíu ár. Vísa þau til áhugaverðrar greinar Rannsóknarstöðvar Hjartaverndar sem birtist í tímaritinu PLoS One í nóvember 2010. Þar kemur fram að dauðsföllum af völdum kransæðasjúkdóma hér á landi fækkaði um 80 prósent hjá einstaklingum undir 70 ára aldri á tímabilinu 1981-2006. Fækkun dauðsfalla má að miklu leyti rekja til breytinga á áhættuþáttum og ber þar hæst lækkun kólesteróls í blóði, minnkaðar reykingar og lægri blóðþrýsting. Samkvæmt rannsókninni dró þó aukin tíðni offitu og sykursýki nokkuð úr umfangi þessa árangurs. 


Ráðleggingar Manneldisráðs Íslands

Í grein sinni rifja þau Gunnar og Laufey upp viðbrögð Manneldisráðs Íslands við hárri dánartíðni vegna kransæðasjúkdóms hér á landi fyrir um 30 árum. Lagði ráðið áherslu á að minnka mettaða fitu í fæðunni og auka hlut grænmetis og ávaxta. Hvatt var til þess að velja fituminni mjólkurvörur í stað þeirra feitu og nota olíu í matargerð í staðinn fyrir hart smjörlíki eða smjör. 

Höfundarnir telja að almenningur og matvælaframleiðendur haf brugðist rétt við og að mataræði hafi færst í hollustuátt. "Léttmjólk kom á markaðinn 1982 og í kjölfarið birtist fjöldi annarra fituminni mjólkurvara. Neysla á transfitu og mettaðri fitu minnkaði í kjölfarið". 

Gunnar og Laufey benda á að mataræði íslendinga fyrir 30 árum hafi einkennst af óvenju mikilli neyslu á mettaðri fitu. "Á þessum tíma var nýmjólkurneysla Íslendinga ein sú allra mesta í Evrópu, en léttmjólk stóð Íslendingum alls ekki til boða á þessum tíma. Þessi staðreynd, ásamt almennri notkun á hörðu smjörlíki við matargerð, bakstur og matvælaframleiðslu átti stóran þátt í að mettaða, harða fitan var svo fyrirferðarmikil í íslensku fæði, svo ekki sé minnst á allt kexið og sætabrauðið sem sannarlega lagði mikið af mörkum til fituneyslunnar"

Smjörlíki, kex og sætabrauð voru mikilvæg uppspretta transfitu á árum áður. Mettaða fitu er hins vegar aðallega að finna í náttúrulegum afurðum eins og feitum mjólkurvörum og rauðu kjöti. Varast ber að setja mettaða fitu og transfitu undir sama hatt því mikill eðlismunur er á þessum tveimur gerðum fitu. Fáir efast í dag um að mikil neysla á transfitu auki líkur og hjarta-og æðasjúkdómum.

Breytingar á mataræði Íslendinga 1990 - 2002

Rannsóknir Hjartaverndar sýna að kólesteról í blóði Íslendinga hefur lækkað síðustu fimm áratugi. Fræðimenn telja að þetta megi rekja til áðurnefndra breytinga á mataræði Íslendinga. 


Á myndinni hér að ofan má sjá að stór hluti lækkunar á kólesteróli í blóði fullorðinna Íslendinga átti sér stað á árabilinu 1991-2003. Því er áhugavert að skoða þær breytingar sem urðu á mataræði Íslendinga á þessu árabili. Þessi gögn eru aðgengileg því niðurstöður Landskönnunar á mataræði Íslendinga voru birtar árin 1990 og 2002. 

Í kynningu Manneldisráðs árið 2003 kom fram að borið saman við 1990 hafi sykurneysla aukist verulega og sé nú vandamál. Þá er þess getið að neysla gosdrykkja sé gífurleg, einkum meðal ungra drengja. "Sykurneysla stráka er jafnframt óheyrilega mikil eða 143 grömm af viðbættum sykri á dag". Stúlkur drukku að jafnaði hálfan lítra af gosdrykkjum á dag. "Mjólkurneysla þeirra er hins vegar þverrandi lítil og fiskneysla hverfandi og næringarefni í fæðu bera þess merki." Pitsuneysla ungra stráka vakti athygli því hún samsvaraði 120 grömmum á dag sem jafngildir stórri sneið á degi hverjum.

8936901 m

Mikil aukning varð á gosdrykkjaneyslu og neyslu viðbætts sykurs hér á landi á árabilinu       1990-2002.

Athyglisvert er hve miklar breytingar virðast hafa orðið á mataræði Íslendinga á þessu tólf ára tímabili. Mest áberandi var minni neysla á mjólk, fiski og kartöflum en meiri neysla gosdrykkja, vatns, gænmetis, ávaxta, brauðs, morgunkorns og pasta. Heildarmagn kjöts breyttist lítið en þó minnkaði neysla lambakjöts en neysla á kjúklingakjöti og svínakjöti jókst. Athygli vekur að fiskneysla minnkaði um 45 prósent.

Fituneysla breyttist talvert milli 1990 og 2002. Heildarfituneysla var 35% orkunnar árið 2002 en 41% árið 1990. Þetta var talið jákvætt og í samræmi við manneldismarkmið. Neysla á harðri fitu minnkaði úr 19% í 16% orkunnar á tímabilinu. 

Ljóst er að margar af þeim breytingum sem urðu á mataræði okkar á þessum árum voru neikvæðar. Sykurneysla jókst mikið. Gosdrykkjaneysla jókst um 37%. Þá fór offita hratt vaxandi á þessu tímabili sem hlýtur að tengjast óæskilegri þróun á mataræði.

Óneitanlega vekur nokkra furðu að kólesteról í blóði hafi lækkað á þessum tíma. Sennilega má rekja það til breytinga á fituneyslu. Gæti þar skipt mestu máli minnkuð neysla á transfitu og mettaðri fitu. Hins vegar ber að hafa í huga að mettuð fita hækkar yfirleitt HDL-kólesteról (góða kólesterólið) og hefur jákvæð áhrif á stærð LDL-agna

Fiskur er mikilvæg uppspretta fjölómettðra fitusýra en þær eru almennt taldar hafa jákvæð áhrif á kólesterólmagn í blóði. Því má ætla að minnkuð fiskneysla hafi unnið gegn lækkun kólesteróls á þessum tíma. 

Margt bendir til að neikvæðu breytingarnar sem urðu á mataræði okkar á áðurnefndu tímabili hafi verið mest áberandi meðal ungs fólks. Mælingar Hjartaverndar á kólesteróli náðu hins vegar ekki til þessa hóps. Þetta gæti skýrt hvers vegna versnandi matarvenjur hafi ekki endurspeglast í kólesterólmælingum Hjartaverndar á þessu tímabili.

Ýmsir fræðimenn hafa bent á að ráðleggingar lýðheilsuyfirvalda í Bandaríkjunum um að draga úr fituneyslu hafi víða orðið til þess að sykurneysla fór vaxandi. Breytingarnar á mataræði Íslendinga á árabilinu 1990 - 2002 koma heim og saman við að þetta kunni einnig að hafa gerst hér á landi. Hugsanlegt er að mikil áhersla á fitusnauð matvæli hafi aukið notkun viðbætts sykurs við matvæalaframleiðslu. Færa má rök fyirr því að aukin neysla viðbætts sykurs og gosdrykkja hafi ýtt undir hratt vaxandi tíðni offitu hér á landi og víða annars staðar síðustu 20 - 30 árin.


Kransæðasjúkdómar, lambakjöt og smjör

Víðast hvar í heiminum hefur orðið mikil lækkun á dánartíðni af völdum kransæðasjúkdóms síðustu áratugina. Ísland er ekki einsdæmi hvað þetta varðar.Mjög athyglisvert er að skoða þróunina á dánartíðni af völdum kransæðasjúkdóms hér á landi síðustu fimmtíu ár (sjá mynd að ofan). Árin 2001-2005 er dánartíðnin nokkuð svipuð og á árabilinu 1951-55. Því er ljóst að ekki varð lækkun á dánartíðni af völdum kransæðasjúkdóms á íslandi ef allt tímabilið 1950 - 2005 er skoðað sérstaklega. Hins vegar fóru kólesterólgildi í blóði Íslendinga lækkandi á þessu tímabili. Þannig reis og féll dánartíðnin af völdum kransæðasjúkdóms þótt kólesterólgildin hafi allan tíman verið lækkandi. Þetta gæti bent til þess að samband kólesteróls í blóði og dánartíðni af völdum hjarta-og æðasjúkdóma sé flóknara og margslungnara en við höfum oft talið.

Stundum er því fleygt að rannsókn Hjartaverndar á þeim þáttum sem skýra lækkun dánartíðni af völdum kransæðasjúkdóms hafi sannað að minni neysla mettaðrar fitu skýri að hluta til þann árangur sem náðst hefur. Þetta er ekki rétt því tengsl neyslu á mettaðri fitu við lækkandi dánartíðni af völdum kransæðasjúkdóms voru yfir höfuð ekki skoðuð í þessarri rannsókn. Hins vegar ályktuðu rannsakendurnir að minnkuð neysla transfitu og mettaðrar fitu skýrði að öllum líkindum mest af þeirri lækkun kólesteróls sem varð á rannsóknartímabilinu. Hugsanlegt er þó að aðrir þættir eigi þar einnig hlut að máli. Reykingatíðni lækkaði mikið á tímabilinu og kyrrseta minnkaði. Báðir þessir þættir geta haft áhrif á magn kólesteróls í blóði.

Fjölmargar erlendar rannsóknir benda til þess að ekki séu tengsl á miilli hjarta-og æðasjúkdóma og neyslu á mettaðri fitu. Rétt er þó að taka fram að munur kann að vera á fersku rauðu kjöti og unnum kjötvörum þegar kemur að hollustu. Rannsóknir benda til að unnar kjötvörur hafi sterkari tengsl við hættu á langvinnum sjúkdómum en óunnar kjötvörur. Nýleg samantekt á faraldsfræðilegum rannsóknum sem skoðað hafa neyslu á feitum mjólkurvörum bendir ekki til þess að tengsl séu á milli neyslu slíkrar fæðu og hættunnar á hjarta-og æðasjúkdómum. 

15173298 m

Sjálfsagt er að velja ein-og fjölómettaður fitursýrur sem t.d. má finna í fiskafurðum og ólífuolíu umfram mettaða fitu. 

Nokkrar rannsóknir benda til þess að ef mettaðri fitu er skipt út fyrir fjölómettaðar fitusýrur megi draga úr líkum á hjarta-og æðasjúdómum. Rannsóknir hafa hins vegar líka sýnt að ef mettaðri fitu er skipt út fyrir kolvetni minnka ekki líkur á hjarta-og æðasjúdkómum. 

Í grein Gunnars og Laufeyjar lýsa þau áhyggjum sínum af auknum áhuga á fituríkum matvörum hér á landi. Þessi áhugi virðist tilkominn vegna mikilla vinsælda lágkolvetna/háfitu mataræðis. Benda þau á að fréttir berist nú af 20% aukningu á smjörframleiðslu hér á landi. 

Þrátt fyrir þetta benda þau Gunnar og Laufey á að lágkolvetnamataræði geti komið að gagni, ekki síst fyrir þá sem eiga við mikla offitu að stríða. Þetta er áhugavert í ljósi þess að talsvert hefur skort á að fagfólk viðurkenni notagildi þessarrar aðferðar. 

Ef aukin smjörneysla skýrist af því að smjörs er neytt frekar en kolvetna og sykurs er ekki ástæða til að ætla að tíðni hjarta-og æðasjúkdóma muni aukast. Engar rannsóknir hafa sýnt að sykur og/eða kolvetni séu betri kostur en mettuð fita í þessu samhengi. Því er ekki ástæða til að vara við neyslu á lambakjöti og feitum mjólkurvörum ef neysla sykurs og kolvetna minnkar á sama tíma. Hins vegar er sjálfsagt að velja ein-og fjölómettaður fitur sem t.d. má finna í fiskafurðum og ólífuolíu umfram mettaða fitu. 

Ljóst er að margþættar ástæður liggja að baki fækkun dauðsfalla af völdum kransæðasjúkdóms hér á landi. Rannsóknarhópur Hjartaverndar hefur bent á að lækkun kólesteróls í blóði sé einn þáttur í þeim árangri sem náðst hefur. Telur hópurinn að lækkun kólesteróls megi rekja til aðgerða lýðheilsuyfirvalda sem hófust af alvöru fyrir 30 árum. Þessar ráðleggingar hafa þó því miður ekki enn skilað sér í minnkaðri neyslu á viðbættum sykri og gosddrykkjum. Þrátt fyrir aðgerðir lýðheilsuyfirvalda hér á landi hefur tíðni sykursýki af tegund 2 farið hratt vaxandi og eru Íslendingar í dag feitastir Norðurlandaþjóða.

P.S. Ekki gleyma að læka okkur á Facebook

Bólguvaldandi mataræði og þunglyndi hjá konum 

12323166 m

Talið er að 12-15 þúsund Íslendingar þjáist af þunglyndi á hverjum tíma. Sjúkdómurinn er því býsna algengur hér á landi. Fleiri konur glíma við þunglyndi en karlar. Í Bandaríkjunum er talið að fimmta hver kona þjáist af þunglyndi einhvern tíman á lífsleiðinni. Sjúkdómnum fylgja skert lífsgæði, minnkaðar lífslíkur og aukin hætta á öðrum sjúkdómum, þar á meðal eru hjarta-og æðasjúkdómur, sykursýki og ýmis krabbamein. 

Þunglyndi hefur margþætt einkenni. Þau eiga það sameiginlegt að draga úr lífsgleði og framtakssemi. Hæfni einstaklingsins til að takast á við daglegt líf skerðist og erfiðara verður að sinna daglegum athöfnum, rækta fjölskyldu og vini.

Truflanir í líkamsstarfsemi þunglyndra eiga margt sameiginlegt með þeim sem sjást hjá einstaklingum með hjarta-og æðasjúkdóma og efnaskiptavillu. Þunglyndir sýna oft merki um insúlínmótstöðu og truflanir í starfsemi æðaþels. Þá má oft finna merki um langvinna, hægfara bólguvirkni hjá einstaklingum með þunglyndi. Svipuð bólguvirkni finnst oft hjá sjúklingum með hjarta-og æðasjúkdóma, sykursýki og sum krabbamein. Því hafa sumir fræðimenn talið mögulegt að langvinnar bólgur séu mikilvæg orsök allra þessarra sjúkdóma og hugsanlega þráðurinn sem tengir þá saman.

Fæða með jávæð tengsl við bólguvirkni er líkleg til að vera bólguvaldandi. Því hærri sem bólgustuðullinn er, því sterkari eru tengslin. Fæða með neikvæð tengsl er líkleg til að draga úr bólgum. Þessi verndandi áhirf eru meiri eftir því sem mínustalan er hærri. 

                                           Bólgustuðull
Jákvæð tengsl   

Sykraðir gosdrykkir                    0.39
Unnar kornvörur                         0.36
Rautt kjöt                                      0.33
Smjörlíki                                       0.26
Sykurlausir gosdrykkir               0.23
Annað grænmeti                         0.10
Fiskur                                            0.06

Neikvæð tengsl

Vín                                                -0.48
Kaffi                                              -0.45
Ólífuolía                                       -0.23
Grænt laufgrænmeti                  -0.21
Gult grænmeti                            -0.15

Margar rannsóknir benda til þess að mataræði geti bæði dregið úr og aukið bólguvirkni í líkamanum. Um þetta hef ég fjallað ítarlega í annarri grein. Því er hugsanlegt að mataræði okkar geti haft áhrif á hættuna á að fá þunglyndi. Bandarískir vísindamenn við Harvard háskólann í Boston leituðust nýlega við að svara þessarri spurningu í stórri faraldsfræðilegri rannsókn á konum. Niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu "Brain, Behaviour and Immunity". 

Hvað er bólguvaldandi mataræði?

Rannsókn bandarísku vísindamannanna náði til 43.865 kvenna sem tóku þátt í svokallaðri NHS rannsókn (Nurses´ Health Study) á tímabilinu 1996 - 2008. Konurnar svöruðu reglulega spurningum um mataræði sitt á tímabilinu. 

Til að komast að því hvort bólguvaldandi mataræði tengdist hættu á þunglyndi þurftu vísindamennirnir að skilgreina hvað fæða veldur bólgum. Til þess notuðu þeir hóp kvenna sem rannsakaður var á árabilinu 1989-1990. Mæld var bólguvirkni í blóði kvennanna og hún borin saman við niðurstöður spurningalista um mataræði. Á þennan hátt var hægt að reikna fylgni á milli mismunandi mataræðis og bólguvirkni. Reiknaður var út bólgustuðull fyrir msimunandi fæutegundir (sjá töfluna hér að ofan). 

Fæðumynstur sem hafði í för með sér aukna bólguvirkni einkenndist af hlutfallslega lítilli neyslu á víni, kaffi, ólífuolíu, gulu grænmeti og grænu laufgrænmeti, en hlutfallslega mikilli neyslu á sykruðum gosdrykkjum, unnum kornvörum, rauðu kjöti, sykurlausum gosdrykkjum og smjörlíki. 

12693549 m

Neysla á grænu laufgrænmeti og 
gulu grænmeti dregur úr bólguvirkni

Ef þú vilt síður neyta fæðu sem eykur bólguvirkni skaltu forðast sykraða og sykurlausa gosdrykki, unnar kornvörur og rautt kjöt. Fiskur og grænmeti eru síður bólguvaldandi. Hófleg vínneysla, kaffi, ólífuolía, grænt laufgrænmeti og gult grænmeti getur dregið úr bólguvirkni. 

Bólguvaldandi mataræði og þunglyndi

Rannsókn bandarísku vísindamannanna leiddi í ljós að konur sem neyttu fæðu sem hafði sterka tengingu við aukna bólguvirkni voru líklegri til að fá þunglyndi en konur sem neyttu fæðu sem hafði veika tengingu við aukna bólguvirkni. Töldu vísindamennirnir líklegt að tengsl mataræðis við þunglyndi skýrist að einhverju leyti af áhrifum mismunandi fæðutegunda á bólgusvörun.

Niðurstaðan er í samræmi við rannsóknir sem sýnt hafa að þeir sem halda sig við áherslur Miðjarðarhafsmataræðisins þegar kemur að fæðuvali hafa minni hættu á þunglyndi. Miðjarðarhafsmataræðið inniheldur mikið af fæðutegundum sem draga úr bólguvirkni. 

Orsakir þunglyndis eru margþættar. Langvinn hægfara bólguvirkni kann að vera einn af þeim þáttum sem hefur áhrif á tilurð sjúkdómsins. Slík bólguvirkni getur jafnframt skýrt þá sterku fylgni sem er á milli þunglyndis, hjarta-og æðasjúkdóma, offitu, sykursýki og sumra krabbameina. 

Rannsóknin sannar ekki að neysla á fæðu sem eykur bólguvirkni valdi þunglyndi. Faraldsfræðilegar rannsóknir af þessu tagi geta yfirleitt ekki sannað að um orsakasamhengi sé að ræða. Þrátt fyrir það hefur rannsóknin vakið talsverða athygli og er niðurstöðurnar enn ein vísbendingin um að mataræði okkar getur haft mikil áhrif á heilsu okkar og líðan. 


P.S. Ekki gleyma að læka okkur á Facebook


Hvað eigum við að borða hjartað mitt?

20690656 m

Það er óumdeilt að það sem við borðum hefur áhrif á heilsufar okkar og líðan. Jafnvel er líklegt að þáttur mataræðis sé vanmetinn þegar kemur að heilsu og forvörnum. Þegar gefa þarf ráðleggingar um mataræði vandast málið hins vegar því næringarfræði er umfangsmikil og margsnúin fræðigrein og rannsóknir á mataræði og áhrifum þess eru vandasamar. Þess vegna eru fræðimenn ekki alltaf sammála um hvað sé best að borða til að forðast sjúkdóma og halda góðri heilsu.

Mataræði hefur löngum verið talið hafa mikil áhrif á tilurð hjarta-og æðasjúkdóma. Yfirleitt tengjum við hjartasjúkdóma við mikla fituneyslu, steiktan og brasaðan mat, smjör, beikon, saltkjöt, mæjónes og rjóma. Í dag er þó flestum ljóst að þetta er mikil einföldun og að nauðsynlegt er að huga að mörgum öðrum þáttum. Við höfum gjarnan einblínt um of á þýðingu blóðfitunnar enda höfum við lagt ofuráherslu á þýðingu kólesteróls fyrir hjartað og æðakerfið. Þetta hefur orðið til þess að við höfum horft fram hjá ýmsum öðrum mikilvægum þáttum sem skipta máli varðandi tengsl mataræðis við hjarta-og æðasjúkdóma.

Vísindamenn ósammála

Á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar deildu vísindamenn um áhrif mataræðis á tilurð hjartasjúkdóma. Bandaríkjamaðurinn Ancel Keys gerði þekktar faraldsfræðilegar rannsóknir á tengslum mataræðis og hjartasjúkdóma. Niðurstaða hans var sú að mikil neysla mettaðrar fitu og kólesteróls yki hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum.

Rannsóknir Keys voru þó umdeildar og margir samtímamenn hans höfðu aðrar áherslur. Árið 1972 kom út bók eftir breska næringarfræðinginn John Yudkin sem bar heitið „Pure White and Deadly“ þar sem hann lagði áherslu á tengsl milli óhóflegrar sykurneyslu og hjarta-og æðasjúkdóma. Þrátt fyrir að kenningar Yudkins ættu sér marga fylgismenn urðu áherslur Keys ofan á. Nefnd sem stýrt var af bandaríska öldungardeildar-þingmanninum og forsetaframbjóðandanum George McGovern sendi árin 1977 og 1980 frá sér leiðbeiningar um mataræði til bandarísku þjóðarinnar. Þar var lögð áhersla á að draga bæri úr fituneyslu, sérstaklega neyslu mettaðrar fitu og kólesteróls. Þessar leiðbeiningar höfðu mikil áhrif á ráðleggingar lýðheilsuyfirvalda annars staðar á vesturlöndum og segja má að áherslur McGovernnefndarinnar hafi beint almennum ráðleggingum um mataræði í ákveðinn farveg sem haldist hefur allar götur síðan.

Á síðustu þremur áratugum hefur líkamsþyngd aukist hröðum skrefum víðast hvar í heiminum og offita verður sífellt stærra heilsufarsvandamál. Þetta hefur gerst á sama tíma og dregið hefur úr neyslu á fitu. Margir fræðimenn halda því fram að offitufaraldurinn megi að hluta til rekja til óhóflegrar neyslu á sykri, sérstaklega frúktósa og ýmsum viðbættum, óhollum kolvetnum.

Sama gildir ekki fyrir alla

Það kann að vera erfitt og jafnvel vafasamt að gefa einhlítar ráðleggingar um mataræði fyrir alla. Hvaða mataræði er best í hverju tilviki ræðst af þáttum eins og líkamsþyngd, efnaskiptum, blóðfitum, blóðsykri, blóðþrýstingi og undirliggjandi sjúkdómum. Sem dæmi má nefna að einstaklingur sem er of þungur þarf allt aðrar áherslur en sá sem er í eðlilegum holdum. Þá þarf að taka tillit til þess hvort sykursýki eða önnur efnaskiptavandamál eru til staðar eða ekki.

Ef þú ætlar að bæta blóðfiturnar þínar er oftast gagnlegt að draga úr neyslu mettaðrar fitu og kólesteróls. Há blóðfita er áhættuþáttur hjarta-og æðasjúkdóma. Því er ráðlegt að neyta fæðu sem lækkar LDL-kólesteról (vonda kólesterólið) og þríglýseríða. Að sama skapi er talið æskilegt að hækka HDL-kólesteról (góða kólesterólið) sem talið er að hafi verndandi áhrif. Þetta geturðu gert með því að draga úr sykurneyslu og auka hreyfingu.

Ef þú hins vegar glímir við of mikla líkamsþyngd gætirðu verið með svokallað efnaskiptaheilkenni (metabolic syndrome). Margar rannsóknir benda til þess að í slíkum tilvikum sé gagnlegt að draga úr neyslu sykurs og kolvetna og auka fituneyslu.

Orkugjafarnir

Meginorkugjafar okkar eru kolvetni, fita og prótín (eggjahvíta). Mikilvægt er að þekkja þessa fæðuflokka, eðli þeirra og mikilvægi fyrir mataræði okkar. 

Kolvetni. Landlæknisembættið mælir með því að við fáum 50-60 prósent daglegrar orku úr kolvetnum. Mikilvægt er þó að hafa í huga að kolvetni eru ekki öll eins. Æskilegt er að borða flókin kolvetni, ávexti, grænmeti og baunir. Flókin kolvetni má finna í heilkornavörum, rótargrænmeti eins og kartöflum og gulrótum, brúnum hrísgrjónum, og byggi. Þessi kolvetni eru rík af vítamínum, steinefnum og trefjum. Dæmi um heilkornavörur eru rúgbrauð, ýmis önnur brauð úr heilkorni, hafragrjón, heilhveitipasta og hýðishrísgrjón. Ávextir og heilkorn tryggja þér aukið magn af trefjum sem lækkar LDL-kólesteról. Forðastu öll unnin kolvetni eins og hveitibrauð, hveitibakkelsi, kex, kökur, hveitipasta, gosdrykki og sælgæti.

Fita. Fita er lífsnauðsynleg. Mikilvægt er þó að vanda valið á þeirri fitu sem við neytum. Forðastu alfarið transfitu. Transfita verður til við herðingu á ómettuðum fræ- eða jurtaolíum. Olíunni er breytt í fast form með því að hita hana við háan hita og bæta við hana vetnisatómum. Í innihaldslýsingum matvæla eru transfitur oftast einkenndar sem hert fita, jurtaolía eða jurtafeiti. 

Nokkur mikilvæg atriði varðandi mataræði ef þú vilt vernda hjartað og æðakerfið

 • Forðastu viðbættan sykur 
 • Forðastu sælgæti, lakkrís og sykraða gosdrykki 
 • Borðaðu grænmeti oft á dag
 • Borðaðu ávexti 
 • Forðastu unnin matvæli, sérstaklega unnar kjötvörur, kex, kökur og snakk
 • Eldaðu þinn eigin mat og notaðu fersk hráefni
 • Forðastu transfitur 
 • Neyttu dýrafitu og mjólkurfitu í hófi 
 • Borðaðu fisk nokkrum sinnum í viku – gjarnan feitan 
 • Borðaðu heilkorn 
 • Tileinkaðu þér áherslur Miðjarðarhafsmataræðisins

Veldu frekar ómettaðar fitusýrur en mettaða fitu. Mettuð fita er yfirleitt hörð við stofuhita. Fjölómettaðar fitusýrur eins og omega-3 eru taldar hafa jákvæð áhrif á æðakerfið. Þessar fitusýrur er helst að finna í fiskafurðum, sérstaklega í feitum fiski eins og laxi, silungi, síld og makríl. Borðaðu einnig einómettaðar fitusýrur. Þær má finna í hnetum og fituríkum jurtaafurðum eins og ólífum og lárperum (avocado). Ólífuolía er dæmi um olíu sem inniheldur einómettaðar fitusýrur. Veldu mjólkurvörur með lágt fituinnihald, t.d. undanrennu eða fjörmjólk, magra osta og fitulitla jógúrt. Hafðu þó í huga að margar fitusnauðar mjólkurvörur innihalda mikinn sykur sem er óæskilegt.

Prótín. Vandaðu valið á prótínum. Þetta geturðu gert með því að borða mikið af fiski og grænmeti, fremur en rautt kjöt. Það er þó engin ástæða til að forðast rautt kjöt alfarið. Veldu þó frekar magurt kjöt en feitt. Varastu unnar kjötvörur eins og skinkuálegg, hangikjötsálegg og spægipylsu.

Vísindarannsóknir hafa sýnt að Miðjarðarhafsmataræðið og DASH mataræðið hafa jákvæð áhrif á áhættuþætti hjarta-og æðsjúkdóma. Þá hafa rannsóknir sýnt að Miðjarðarhafsmataræðið getur bætt horfur einstaklinga með áhættuþætti hjartasjúkdóma svo og einstaklinga sem fengð hafa kransæðastíflu. 


Nokkur mikilvæg heilræði

Hér að neðan eru nokkur mikilvæg atriði varðandi mataræði ef þú vilt fara vel með hjartað og æðakerfið og draga úr líkum þínum á að fá hjarta-og æðasjúkdóma. 

 • Forðastu viðbættan sykur 
 • Forðastu sælgæti, lakkrís og sykraða gosdrykki 
 • Borðaðu grænmeti oft á dag
 • Borðaðu ávexti 
 • Forðastu unnin matvæli, sérstaklega unnar kjötvörur, kex, kökur og snakk
 • Eldaðu þinn eigin mat og notaðu fersk hráefni 
 • Forðastu transfitur 
 • Neyttu dýrafitu og mjólkurfitu í hófi 
 • Borðaðu fisk nokkrum sinnum í viku – gjarnan feitan 
 • Borðaðu heilkorn 
 • Tileinkaðu þér áherslur Miðjarðarhafsmataræðisins

Ef þú ætlar að breyta mataræðinu er gott að setja sér nokkrar einfaldar grunnreglur sem þú telur þig geta fylgt. Leiðbeiningarnar hér að ofan geta hjálpað þér að bæta mataræði þitt, lækka blóðfitur og draga úr hættunni á hjarta- og æðasjúkdómum. Það einfaldar málið að hugsa um hvern fæðuflokk fyrir sig og velja það sem hentar best í hverjum flokki. Mikilvægt er að mataræðið sé fjölbreytt. Ekki gleyma hreyfingunni, hún er lykillinn að góðri heilsu, sama á hvaða aldri þú ert.

P.S. Ekki gleyma að læka okkur á Facebook

Offita - Einfalt mál eða dularfull ráðgáta?

16640342 m

Á skömmum tíma hefur gríðarleg aukning orðið á tíðni offitu um allan heim. Þessu fylgir mikil aukning á langvinnum sjúkdómum af ýmsu tagi, sykursýki af tegund 2, hjarta-og æðasjúkdómum og Alzheimer sjúkdómi. Sérfræðingar eru agndofa og ráðvilltir enda erfitt að finna einfaldar eða einhlítar skýringar á faraldrinum.

Offita (obesity) er venjulega skilgreind sem líkamsþyngdarstuðull hærri en 30. Ofþyngd (overweight) er skilgreind sem líkamsþyngdarstuðull á milli 25-30.

Á myndinni hér að neðan má sjá að vaxandi tíðni offitu einskorðast ekki við ákveðna heimsluta. Mikla aukningu má sjá alls staðar í heiminum á tæplega 20 ára tímabili. Meðal allra jarðarbúa tvöfaldaðist tíðni offitu á árabilinu 1980-2008. Árið 2008 er talið að 10 prósent karla og 14 prósent kvenna um allan heim hafi verið með offitu. Offita er algengust í Norður-og Suður Ameríku þar sem tíðnin var um 26 prósent árið 2008. Nýleg norræn rannsókn bendir til að tíðni offitu meðal fullorðinna Íslendinga sé á bilinu 17 - 18 prósent. Sama rannsókn sýndi að Íslendingar eru feitastir Norðurandaþjóða. 


Myndin sýnir algengi offiti í ýmsum heimshlutum, árin 1990 og 2008. AFR: Afríka, AMR: Ameríka, SEAR: Suður og austur Asía, EUR: Evrópa, EMR: Miðausturlönd, WPR: Vestur Kurrahafssvæðið, Global: Jarðarbúar allir. Heimild: JACC, Des, 2012


Offita stafar venjulega af aukinni uppsöfnun á fitu í líkamanum sem leiðir til þyngdaraukningar. Margir telja orsök offitu vera afar einfalda. Í hverju einstöku tilviki skýrist offita af því að viðkomandi hefur innbyrt meiri orku (hitaeiningar) en hann hefur brennt. Samkvæmt þessu er lausnin einföld og felst í því að borða minna (færri hitaeiningar) og hreyfa sig meira. 

Afar ólíklegt er þó að offitufaraldurinn sem geysar um allan heim eigi sér svona einfalda skýringu.  Ósennilegt er að skyndilega hafi stór hluti jarðarbúa farið að borða meira og hreyfa sig minna? Skýringin er flóknari og lýtur ekki bara að því hversu mikið við borðum, heldur einnig að því hvað við borðum, hvenær og hvernig. Hreyfing og aðrir þættir lífsstíls okkar skipta einnig máli.

Samfélagslegir þættir koma einnig við sögu. Hegðun okkar og lífsmynstur mótast að miklu leyti af samfélagslegum þáttum. Miklar annir og skyndiákvarðanir geta haft mikil áhrif á matarval okkar. Þetta nýtir matvælaiðnaðurinn sér óspart og skyndibitastaðir af ýmsu tagi blómstra.

Að sjálfsögðu þurfa lýðheilsustofnanir einnig að axla einhverja ábyrgð því óhætt er að segja að faraldurinn hafir orðið til á þeirra vakt og þrátt fyrir að ítarlegar leiðbeiningar um mataræði séu reglulega gefnar út fyrir almenning. 

Við skulum þó fara varlega við að skella skuldinni á yfirvöld, eða aðra yfir höfuð, þegar kemur að holdafari og heilsu. Þegar upp er staðið er ljóst að enginn hefur meiri áhrif á þessa hluti en við sjálf. Við ráðum og veljum hvað við borðum, hversu mikið og hvað oft. Það er einnig á okkar valdi hversu mikið við hreyfum okkur og hversu miklum tíma við verjum í sófanum eða hægindastólnum.

16336463 m

Að vikta sig reglulega og fylgjast með eigin holdafari ætti að vera jafn sjálfsagt og að bursta tennurnar.

Íslendingar geta reyndar að mörgu leyti verið býsna stoltir af sinni lýðheilsu  Lífslíkur eru háar hér á landi. Við erum í sjöunda sæti á lista yfir þjóðir með hæstu lífslíkurnar. Japanir eru í efsta sæti, þar á eftir koma Svisslendingar, Ítalir, Spánverjar, Ástralir og Ísraelsbúar. Þegar kemur að reykingum, sem eru sennilega mesti heilsuskaðvaldur nútímans, geta Íslendingar verið býsna sáttir. Fjöldi Íslendinga sem reykir er rúmlega 14 prósent og erum við þar meðal þeirra lægstu í heimi. Hlutfall þeirra sem reykja í OECD löndunum er 21.1 prósent að meðaltali. Svíar eru lægstir Norðurlandaþjóða en alþekkt er hins vegar að fáir nota meira munntóbak en þeir.

Nokkuð ljóst er að besta leiðin til að sigrast á offituvandanum eru forvarnir. Margoft oft hef ég séð einstaklinga vakna upp af vondum dvala, 10-20 kílóum þyngri en 5-10 árum áður. Oft virðumst við hreinlega sofna á verðinum og gleyma hvað lífsstíll okkar ræður mikilu um holdafar okkar og heilsu. Að vikta sig reglulega og fylgjast með eigin holdafari ætti að vera jafnsjálfsagt og að bursta tennurnar.

Þegar einstaklingur er orðinn of feitur er oft erfitt að snúa ferlinu við. Bandarískar rannsóknir sýna að 80-90 prósent þeirra sem ná að léttast, þyngjast aftur og verða jafnvel enn þyngri en áður en megrunin hófst. Til þess að ná varanlegum árangri þarf einbeittan vilja og skilning á vandanum og því sem þarf að gera. 

Aukinn þekking á tilurð offitu, fræðsla til almennings um mataræði, hreyfingu og heilbrigða lífshætti er fyrsta skrefið í baráttnni við offitufaraldurinn. Rannsóknir hafa sýnt að 77 prósent af börnum sem eru of feit munu þjást af offitu á fullorðinsárum en aðeins 7 prósent af börnum með eðlilega líkamsþyngd. Ef forða á næstu kynslóð frá offituvandanum þarf gríðarlegt samfélagsátak sem ekki síst þarf að beinast að börnum og unglingum. Fræðsla um heilbrigt mataræði, hollustu og mikilvægi hreyfingar þarf að byrja strax í barnæsku.

"I wish for everyone to help create a strong, sustainable movement to educate every child about food, inspire families to cook again and empower people everywhere to fight obesity".  

                                                                                                      Jamie Oliver 2010

Sléttfull matskeið af sykri gerir meðalið svo gott...

18161950 m

Við höfum næstum óendanlega valkosti þegar kemur að því að velja það sem við leggjum okkur til munns. Við getum borðið afurðir bæði úr jurta-og dýraríkinu, fisk, kjöt, ávexti, grænmeti, ferskar matvörur, unnar matvörur, brauð, súkkulaði, egg, fitu eða sykur. Valið er endalaust. Meltingarfæri okkar eru fjölhæf og sýna ótrúlega hæfni til að bregðast við ýmsum óvæntum gestum. Við erum ekki eins og risaeðlurnar forðum daga sem annað hvort voru kjötætur eða jurtaætur. Maðurinn er alæta

Hin mikla fjölbreytni sem ríkir í matvælaúrvali á vesturlöndum gerir okkur lífið þó ekki alltaf auðveldara. Mikið úrval getur skapað valkvíða. Flest okkar vita að við eigum helst ekki bara að borða það sem okkur finnst gott. Við þurfum að tryggja að við fáum öll tilskilin næringarefni og alþekkt er að sumur matur er "hollari" en annar. Hvar hollustuna er að finna liggur þó ekki alltaf í augum uppi. Þetta "lúxusvandamál" vesturlandabúa tekur Banadaríkjamaðurinn Michael Pollan fyrir á skemmtilegan hátt í bók sinni "The Omnivore Dilemma" eða "Ógöngur alætunnar". Meginþema bókarinnar er spurningin; "Hvað eigum við að hafa í kvöldmat?" Einföld spurning þótt Pollan takist að gera svarið einstaklega flókið. 


Lýðheilsa og leiðbeiningar um mataræði

Lýðheilsufræði eru vísindi sem fjalla um hvernig fyrirbyggja á sjúkdóma og bæta heilsu með aðferðum sem ná til samfélagsins alls eða samfélagshópa. Í ljósi þess að mataræði hefur afgerandi áhrif á heilsu okkar er ekki að undra að þeir sem hafa þann starfa að huga að lýðheilsu skuli hafa skoðun á því hvað við eigum að borða. Alþekkt er að lýðheilsuyfirvöld á vesturlöndum gefa reglulega út leiðbeiningar um mataræði til þegna samfélagsins í því skyni að bæta heilsu samfélagsins. 

Í ljósi þess að hjarta-og æðasjúkdómar hafa verið algengasta dánarorsökin á vesturlöndum um árabil er ekki að undra að opinberar leiðbeiningar um mataræði hafi beinst mest að því að draga úr vægi þessarra sjúkdóma í samfélaginu. Flest okkar þekkja boðskap lýðheilsuyfirvalda í þessu samhengi. Ríkuleg áhersla hefur verið lögð á að draga úr neyslu mettaðrar fitu. Þessi fita er oft nefnd hörð fita og er hana helst að finna í dýraríkinu, aðallega í kjöti og mjólkurvörum. Þá hafa þessar ráðleggingar oftast hvatt til ríkulegrar kolvetnaneyslu þót yfirleitt alltaf sé varað við mikilli neyslu á unnum sykri. Þessar ráðleggingar hafa fengið stuðning virtra samtaka lækna-og næringarfræðinga víða um heim.

Nýlega ritaði ungur breskur hjartalæknir Asheem Malhotra grein í hið virta breska læknatímarit, British Medical Journal þar sem hann tekur þessi efni til umfjöllunar. Grein Malhotra hefur vakið mikla athygli þótt ekki sé að finna þar mikinn nýjan sannleik. Greinin bergmálar hins vegar raddir sem hafa gerst sífellt háværari um að lýðheilsuyfirvöld séu á villigötum þegar kemur að leiðbeiningum um mataræði. 

Ljóst er að margir fræðimenn eru ósammála Malhotra. Hins vegar er athyglsivert að rödd hans hefur fengið áheyrn í svo virtu læknisfræðitímariti því oftast hafa þeir sem gagnrýnt hafa ríkjandi leiðbeiningar og kenningar þurft að tjá sig á öðrum vettvangi.

Fitur og hjartað

Fræðimenn eru almennt sammála um að transfita, sem oft er að finna í skyndimat, kexi, kökum og smjörlíki, auki líkur á hjarta-og æðasjúkdómum. Malhotra bendir hins vegar á að "þulan" um að minnka þurfi neyslu á mettaðri fitu hafi verið megináhersluatriði í leiðbeiningum lýðheilsuyfirvalda um mataræði um áratugaskeið. Athyglisvert er að í bæklingi Lýðheilsustöðvar um mataræði frá 2006 er mettuð fita og transfita sett í sama flokk sem er afar villandi og beinlínis rangt eins og áður hefur verið bent á hér.

Malhotra telur að ráðleggingar um að draga úr neyslu mettaðrar fitu hafi beinlínis aukið hættuna á hjarta-og æðasjúkdómum. Þá telur hann einnig að ofuráhersla lýðheilsuyfirvalda á að lækka kólesterólmagn í blóði hafi leitt til þess að milljónir manns séu að óþörfu meðhöndlaðir með blóðfitulækkandi lyfjum.

Meginástæða þess að mettuð fita hefur verið talin auka líkur á hjarta-og æðasjúkómum er að neysla slíkrar fitu er talin hækka magn LDL-kólesteróls ("vonda" kólesterólið) í blóði. Malhotra bendir hins vegar á að neysla mettaðrar fitu hækki magn stórra LDL-prótína á meðan það séu fyrst og fremst lítil LDL-prótín sem auki hættuna á hjartasjúkdómum. Magn lítilla LDL-prótína aukist hins vegar við ríkulega kolvetnaneyslu.

Malhotra bendir á þekkta samantekt á rannsóknum á neyslu mettaðrar fitu sem ekki bendir til þess að slík neysla auki hættuna á hjarta-og æðasjúkdómum. Þá bendir hann á að neysla unninnar kjötvöru sé líklegri til að tengjast aukinni hættu á hjarta-og æðasjúkdómum en neysla á rauðu kjöti eða feitum mjólkurvörum.


Sléttfull matskeið af sykri gerir meðalið…..

maryPoppins

"Sléttfull matskeið af sykri gerir meðalið svo gott…", syngur Mary Poppins. Auðvitað er um líkingamál að ræða og endurspeglar textinn tilraunir Mary Poppins til að fá Banks fjölskylduna til að skilja mikilvægi gleðinnar og þess að sameinast í leik. Athyglisvert er þó að við skulum sjá samlíkingu með sykri og gleði en það er hins vegar eitthvað sem gosdrykkjaframleiðendur eins og Coca Cola hafa nýtt sér óspart um áratuga skeið. Hamingja og glaðværð fylgir þeim sem drekka gosdrykkinn fræga, a.m.k. ef dæma má af auglýsingunum.

Malhotra bendir á að þegar lýðheilsuyfirvöld hvöttu til minni fituneyslu hafi matvælaframleiðendur neyðst til að framleiða fitusnauð matvæli. Leiðin sem þeir notuðu til að bragðbæta slíka matvöru hafi verið að bæta í hana sykri. Malhotra telur nýlegar vísindaniðurstöður benda til þess að sykurneysla auki sterklega líkur á offitu, efnaskiptavillu, háþrýstingi, blóðfituröskunum og sykursýki.


Hjarta-og æðasjúkdómar - mikilvægi kólesteróls

Það er liðin rúm hálf öld síðan fyrst var bent á tengsl hækkaðs kólesteróls við hættuna á kransæðasjúkdómi. Síðan þá hefur margt breyst. Í dag hafa tveir þriðju þeirra sem fá kransæðastíflu merki um efnaskiptavillu. Um þrír fjórðu þessarra sjúklinga hafa eðlilegt kólesterólmagn í blóði. Malhotra telur að hátt kólesteról sé ekki meginvandi þessarra einstaklinga.

Malhotra talar tæpitungulaust þegar kemur að notkun blóðfitulækkandi lyfja (statin-lyf). Statin-lyf eru mest ávísuðu lyfin í Bandaríkjunum og standa undir iðnaði sem veltir svo háum upphæðum að tilgangslaust væri að nefna þær hér. Í Bretlandi eru um 8 milljónir manns á statin-lyfjum. Malhotra telur að minni tíðni reykinga og tilkoma bráðra kransæðavíkkana eigi meiri þátt en statin-lyf í lækkandi dánartíðni vegna hjarta-og æðasjúkdóma.

Þá bendir Malhotra á nýlega rannsókn á 150.000 einstaklingum sem sýndi háa tíðni aukaverkana meðal einstaklinga sem taka statin-lyf. Þessi tíðni er mun hærri en lyfjafyrirtækin almennt gefa í skyn og mun hærri en margir læknar gera sér grein fyrir. 

Ýmsir hafa bent á að gagnsemi statin-lyfja er afar lítil þegar þau eru gefin heilbrigðum einstaklingum í fyrirbyggjandi tilgangi. Hins vegar sýndi nýleg rannsókn að Miðjarðarhafsmataræði getur lækkað hættu á hjarta-og æðaáföllum um 30 prósent meðal einstaklinga með aukna áhættu. Áhrif Miðjarðarhafsmataræðisins á dánartíðni eru um þrisvar sinnum meiri en áhrif statin-lyfja í rannsóknum á svipuðum hópum einstaklinga. 

Malhotra telur að kúvending núverandi leiðbeininga um mataræði sé nauðsynleg til að koma réttum skilaboðum til almennings. Núverandi leiðbeiningar hafi þegar valdið skaða og ýtt undir offitufaraldurinn sem nú herjar á þjóðir vesturheims.

P.S. Ekki gleyma að læka okkur á Facebook


© Axel F Sigurdsson 2012