Greinar

Fita er ekki öll þar sem hún er séð

9056057 m

Fituneysla Íslendinga hefur minnkað umtalsvert síðustu 40 árin. Sérstaklega á þetta við um neyslu mettaðrar eða harðrar fitu. Fituneyslan samsvarar nú 36 prósent af heildarorkuneyslunni, samkvæmt nýlegri landskönnun á mataræði á vegum Landlæknisembættisins. Þetta er talin of há tala því í flestum tilvikum er mælt með að fita sé 25 - 35 prósent heildarorkunnar. Þá er neysla mettaðrarar fitu og transfitu hér á landi um 15 prósent orkunnar sem er umtalsvert meira en mælt er með (8 - 9 prósent). Fituneysla er almennt meiri meðal karla en kvenna hér á landi. Yngsta fólkið virðist hins vegar velja fituminnsta fæðið. Fram kemur í könnunni að ungt fólk á aldrinum 18 - 30 ára borðar þrisvar sinnum meira af pasta, frönskum kartöflum og sykruðum mjólkurvörum en þeir elstu (61-80 ára), sjö sinnum meira af pítsu, fimm sinnum meira af sykruðu gosi og tíu sinnum meira af prótein- og megrunardrykkjum. Eldra fólkið borðar tvisvar sinnum meira af fiski og nýjum kartöflum en unga fólkið og fjórum sinnum meira af innmat.

Hver er ástæðan fyrir því að Landlæknisembættið og flestar vestrænar lýðheilsustofnanir hafa hvatt til minni fituneyslu? Þessar ráðleggingar má aðallega rekja til tengsla sem talin hafa verið til staðar á milli fituneyslu annars vegar og offitu, hjarta-og æðasjúkdóma og krabbameina hins vegar. 


Offita

Offita er uppsöfnun líkamsfitu sem leiðir til þyngdaraukningar. Meira en þriðjungur fullorðinna Bandaríkjamanna þjáist af offitu. Löngum hefur verið talið að mikil fituneysla stuðli að offitu enda inniheldur hvert gramm af fitu níu hitaeiningar, en hvert gramm af kolvetnum og próteinum aðeins fjórar. Til að draga úr fituneyslu hafa vestrænar þjóðir hvatt til neyslu afurða með lágu fituinnihaldi. Matvælaframleiðendur hafa brugðist við þessu á jákvæðan hátt og í dag höfum við aðgang að miku úrvali fituskertra matvæla Þessar vörur eiga það hins vegar margar sammerkt að þær innihalda mikið af sykri.

Áhugavert er að skoða tíðni offitu hér á landi á árabilnu 1990-2007 en þá dró verulega úr fituneyslu þjóðarinnar. Árið 2003 birti Manneldisráð niðurstöður könnunar sem sýnir að fituneysla Íslendinga minnkaði umtalsvert á árabilinu1990 - 2003. Eftirfarandi kemur fram í niðurstöðum könnunarinnar: "Fituneysla hefur t.d. tekið stakkaskiptum frá árinu 1990, en þá var óhóflegt fitumagn tvímælalaust helsti ókostur á fæðuvenjum alls þorra Íslendinga. Nú hefur fitan minnkað úr 41% í 35% orkunnar að meðaltali og er heildarfita nú að nálgast æskileg mörk samkvæmt manneldismarkmiðum, en þau hljóða upp á 25-35% orku úr fitu". Hverju skyldi þetta svo hafa skilað þegar kemur að bættri heilsu? Skyldi þetta hafa dregið úr offitu? Myndirnar hér að neðan eru fengnar að láni frá Lýðheilsustöð

Myndin sýnir prósentuhlutfall karla með offitu (BMI>30) hér á landi 1990 - 2007

Konur, of feitar, 09.09. Smella á mynd til að stækka.

Myndin sýnir prósentuhlutfall kvenna með offitu (BMI>30) hér á landi 1990 - 2007


Ljóst er að tíðni offitu hefur aukist mikið á tímabilinu sem um ræðir, á sama tíma og fituneysla hefur minnkað umtalsvert. Þótt fara beri varlega við að draga áyktanir um mögulegt orsakasamband, er ljóst að minnkuð fituneysla Íslendinga hefur ekki komið í veg fyrir vaxandi tíðni offitu. Sumir hafa haldið því fram að ofneysla sykurs sé meginorsök vaxandi tíðni offitu hér á landi. Í þessu samhengi er áhugavert að skoða myndina hér að neðan sem sýnir sláandi aukningu á neyslu gosdrykkja hér á landi á árabilinu 1960 - 2000. 



Hjarta-og æðsjúkdómar

Hjarta-og æðasjúkdómar eru algengasta dánarorsökin hér á landi. Fylgni er á milli hárrar blóðfitu, sérstaklega kólesteróls og LDL-kólesteróls annars vegar og hætunnar á hjarta-og æðasjúkdómum hins vegar. 

Neysla mettaðrar fitu hefur löngum verið talin hækka kólesteról og því hafa lýðheilsuyfirvöld hvatt til minni neyslu mettaðrar fitu í því skyni að draga úr tíðni hjarta-og æðasjúkdóma. Sú staðreynd blasir hins vegar við, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að vísindalegar sannanir fyrir því að neysla mettaðrar fitu auki hættuna á hjarta-og æðasjúkdómum eru býsna fátæklegar. Þó benda sumar rannsóknir til þess að neysla fjöl-og einómettaðra fitusýra sé æskilegri en neysla mettaðrar fitu þegar kemur að hjarta-og æðsjúkdómum. Hins vegar hafa rannsóknir ekki sýnt fram á að neysla kolvetna sé æskilegri en neysla mettaðrar fitu til að forðast þessa sjúkdóma. 

Áhugavert er að rifja upp stærstu rannsókn sem gerð hefur verið á áhrifum þess að draga úr fituneyslu á tíðni hjarta-og æðasjúkdóma. The Womens Health Initiative (WHI) rannsakaði 19.500 konur (meðalaldur 62.3 ár). Helmingur þeirra fékk ráðleggingar um mataræði og hvatningu um að draga úr fituneyslu og auka neyslu á kornvörum, ávöxtum og grænmeti. Hinn helmimgurinn fékk engin slík ráð. Konunum var fylgt eftir í átta ár. Hlutfall fitu í heildarorkuneyslu minnkaði um 8.2 prósent í fyrrgreinda hópnum og LDL-kólesteról (vonda kólesterólið) lækkaði marktækt í þessum hópi. Enginn munur reyndist hins vegar á tíðni hjarta-og æðsjúkdóma milli þessarra hópa. Því tókst ekki að sanna tilgátuna að minnkuð fituneysla dragi úr tíðni hjarta-og æðasjúkdóma. 

Síðustu 30 árin hefur dánartíðni vegna hjarta-og æðasjúkdóma lækkað hér á landi sem og víða annars staðar á vesturlöndum. Nýgengi kransæðastíflu hefur einnig lækkað, sérstaklega meðal karla. Þetta er talið eiga sér margþættar skýringar sem lúta bæði að breytingum á áhættuþáttum og framförum í meðferð þessara sjúkdóma. Sumir hafa talið að minnkuð neysla fitu geti átt hlut að máli og verður það vissulega ekki útilokað. Þó er vafasamt að draga þá ályktun í ljósi þess að inngrips-rannsóknir, eins og WHI, hafa ekki sýnt að minnkuð neysla fitu dragi úr tíðni hjarta-og æðaáfalla. 

Dánartíðni vegna kransæðasjúkdóma hér á landi fór hratt vaxandi upp úr 1950 og náði hámarki á áraunum 1970 -1980. Eftir það fór dánartíðnin lækkandi og segja má að árið 2005 hafi hún verið orðin nokkuð svipuð og hún var árið 1955. Nokkuð erfitt er að tengja þessa þróun við breytingar í fituneyslu landsmanna.

Magn kólesteróls í blóði Íslendinga hefur lækkað síðustu fimmtíu árin. Samkvæmt rannsóknum Hjartaverndar varð mestur hluti lækkunarinnar eftir 1990. Fljótlega upp úr 1990 fór notkun blóðfitulækkandi lyfja hratt vaxandi og er líklegt að það skýri að einhverju leyti þá lækkun sem orðið hefur á kólesterólgildum landsmanna. Sérfræðingar Hjartaverndar hafa þó talið að lækkunina megi fremur rekja til breytinga á mataræði landsmanna. Telja þeir að minni neysla transfitu, mettaðrar fitu, sérlega feitra mjólkurafurða og lambakjöts, auk meiri neysla fjölómettaðrar fitu, eigi hér stærstan hlut að máli. Rétt er þó að hafa í huga, þegar þetta er skoðað, að nýleg samantekt á rannsóknum sem skoðað hafa tengsl neyslu á mettaðri fitu við hjarta-og æðasjúkdóma hefur ekki bent til þess að neysla mettaðrar fitu auki líkurnar á hjarta-og æðasjúkdómum. Hins vegar benti svokölluð Lyon Heart rannsókn til að neysla fjölómettaðra fitsýra, sérstaklega omega 3 (alfa-linolenic acid), sé gagnleg og geti minnnkað líkur á hjarta-og æðaáföllum meðal sjúklinga sem fengið hafa kransæðastíflu.


Krabbamein

Sumar rannsóknir hafa bent til þess að krabbameinstíðni sé hærri meðal þjóða þar sem fituneysla er mikil og lægri meðal þjóða þar sem hún er lítil. Hins vegar benda fjölmargar aðrar rannsóknir til að ekki sé orsakasamband sé á milli fituneyslu og krabbameina. Það er því ljóst að engar sannanir eru fyrir því að neysla fitu auki tíðni krabbameina.


Niðurstaðan

Aðalástæða þess að lýðheilsuyfirvöld hvetja til minnkaðrar fituneyslu eru tengslin sem talin hafa verið á milli fituneyslu annars vegar og tíðni offitu, hjarta-og æðsjúkdóma og krabbameina hins vegar. Reynsla og rannsóknir síðustu ára sína hins vegar að fituneysla er ekki orsök vaxandi tíðni offitu, hvorki hér á landi né annars staðar. Líklegra er að um sé að kenna óhóflegri sykurneyslu, ásamt ýmsum öðrum þáttum.  Þá benda rannsóknir ekki til að minnkuð fituneysla dragi úr tiðni hjarta-og æðasjúkdóma. Nokkrar rannsóknir benda þó til að fjölómettaðar og einómettaðar fitusýrur séu æskilegri en mettuð fita í þesu samhengi. Ekki hefur sannast að fituneysla auki hætti á krabbameinum. Því er nokkuð ljóst að lýðheilsuyfirvöld þurfa að endurskoða ráðleggingar um fituneyslu til almennings. Aukin fræðsla um mismunandi gerðir fitu og áhrif þeirra á heilsu og sjúkdóma er nauðsynleg, enda eru fitur fjölbreytilegur fæðuflokkur og fitur vafalítið mishollar.

Sykur, kolvetni og heilabilun

6903228 m

Vísindamenn í mörgum löndum reyna nú ákaft að skilgreina áhættuþætti Alzheimer sjúkdóms og annarra gerða heilabilunar. Fjöldi fólks með Alzheimer sjúkdóm fer hratt vaxandi og því er baráttan við sjúkdóminn forgangsverkefni víða um heim. Aukin þekking á orsökum sjúkdómsins og áhættuþáttum er forsenda þess að hægt sé að draga úr vandanum og beita forvörnum. 

Um árabil hafa vísindamenn við Mayo Clinic í Bandaríkjunum stundað rannsóknir á tengslum heilabilunar og mataræðis. Nýlega birtu þeir áhugaverðar rannsóknarniðurstöður í tímaritinu Journal of Alzheimer´s Disease. Rannsóknin náði til 1230 einstaklinga á aldursbilinu 70 - 89 ára sem gáfu upplýsingar um hvað þeir höfðu borðað síðasta árið. Vitsmunaleg starfsemi (cognitive function) einstaklinganna var könnuð af læknum, hjúkrunarfræðingum og taugasálfræðingum. Þeir sem höfðu enga vitsmunalega skerðingu, alls 940 einstaklingar, héldu áfram í rannsókninni og komu reglulega í skoðun þar sem vitsmunaleg hæfni var mæld. Eftir fimm ár sýndu 200 þessara einstaklinga merki um væga vitsmunalega skerðingu. Aðallega var um að ræða minnistruflanir og raskanir sem tengdust hugsun, tungumáli og dómgreind. Þesi einkenni geta verið forstig Alzheimer sjúkdóms og annarra tegunda heilabilunar. 

Þeir einstaklingar sem neyttu mestra kolvetna í upphafi rannsóknarinnar voru 1.9 sinnum líklegri til að sýna merki um vitsmunalega skerðingu, borðið saman við þá sem neyttu minnstra kolvetna. Þeir sem neyttu mests sykurs voru 1.5 sinnum líklegri til að sýna merki um vitsmunalega skerðingu en þeir sem borðuðu minnst af sykri. 

Þeir einstaklingar sem borðuðu mesta fitu voru 42 prósent ólíklegri til að upplifa vitsmunalega skerðingu en þeir sem borðuðu minnst af fitu. Þessi sami rannsóknarhópur hefur áður sýnt fram á að neysla fjölómettaðra og einómettaðra fitusýra virðist draga úr líkum á vitsmunalegri skerðingu. Þeir sem borðuðu mest af prótínum voru 26 prósent ólíklegri til að mælast með vitsmunalega skerðingu en þeir sem borðuðu minnst af prótínum. 

Prófessor Rosebud Roberts sem fer fyrir rannsóknarhópnum segir að mikil neysla kolvetna og sykurs geti haft neikvæð áhrif vegna áhrifanna á blóðsykur og insúlínframleiðslu. "Sykur er aðaleldsneyti heilans, því er hófleg neysla kolvetna af hinu góða. Hins vegar getur mikið framboð á sykri truflað hæfni frumnanna til að nýta sér sykurinn, svipað og sést í sykursýki af tegund 2”. 

GI mataræðið

2947222 m

Það eru tískusveiflur í mataræði eins og mörgu öðru. Annað slagið skjóta upp kollinum matarkúrar eða aðrar leiðir til að losna við aukakílóin, bæta heilsu og viðhalda æskuljóma. Oft er slíkum aðferðum hampað af þekktum leikurum og Hollywood stjörnum. GI mataræðið er dæmi um þetta, enda hefur það notið mikilla vinsælda um skeið, ekki síst í stjörnuheiminum. Bandaríska leikkonan Sharon Stone þakkar þessu mataræði unglegt vaxtarlag sitt og nýlega hrósaði Julia Roberts GI-mataræðinu í hástert og taldi það gera sér kleift að viðhalda fegurð sinni og eilífri æsku. Þá hefur Oprah Winfrey mælt með þessu mataræði fyrir þá sem þurfa að léttast þegar aðrar aðferðir hafa brugðist. GI mataræðið hefur einnig notið vaxandi vinsælda á Norðurlöndunum síðustu misseri. Það sem er ólíkt með þessu mataræði og mörgum öðrum tískusveiflum er að það hefur almennt fengið jákvæða umfjöllun meðal sérfræðinga, bæði næringarfræðinga og lækna. GI mataræðið hvetur til ríkulegrar kolvetnaneyslu en mikil áhersla er lögð á að neytt sé réttra/hollra kolvetna.

Fæða með lágan sykurstuðul

  • Ristaðar/saltaðar hnetur   14
  • Fitusnauð jógúrt   14
  • Agúrka   15
  • Eggaldin   15
  • Tómatar 15
  • Paprika 15
  • Spergilkál 15
  • Spínat   15
  • Kirsuber   22
  • Bygg   25
  • Greip   25
  • Rauðar baunir   26
  • Mjólk   27
  • Linsubaunir   29
  • Þurrkaðar aprikósur   31
  • Fettucine pasta   32
  • Undanrenna   32
  • Fitusnauð ávaxtajógúrt   33
  • Heilkorna spagettí   37
  • Epli   38
  • Perur   38
  • Tómatsúpa   38
  • Núðlur   40
  • Hvítt spagettí   41
  • All Bran  42
  • Ferskjur   42
  • Hafragrautur   42
  • Baunasúpa   44
  • Appelsínur   44
  • Makkarónur   45
  • Appelsínusafi   46
  • Gukrætur   47
  • Grænar baunir 48
  • Bakaðar baunir í tómatsósu   48
  • Soðnar gulrætur   49
  • Mjólkursúkkulaði   49
  • Kiwi   52
  • Special K   54
  • Sætar kartöflur   54
  • Bananar   55                          


Sykurstuðull (glycemic index (GI))

GI mataræðið er ekki nýtt af nálinni. Margar bækur hafa verið skrifaðar um þetta efni. Það var kanadíski læknirinn David Jenkins sem árið 1981 skilgreindi GI (glycemic index) eða sykurstuðul fyrstur manna. Jenkins stundaði þá rannsóknir við Háskólann í Toronto. Hann var að gera rannsóknir á áhrifum fæðu, sem innihélt kolvetni, á blóðsykur einstaklinga með sykursýki. Á þessum árum töldu flestir að einföld kolvetni hækkuðu blóðsykur hraðast og mest, á meðan flóknari kolvetni og sterkja yllu minni sveiflum i blóðsykri. Jenkins komst að því að þetta er ekki alveg svona einfalt og sýndi fram á að sum sterkjurík fæða veldur meiri sveiflum í blóðsykri en sum matvara sem innihalda einfaldari sykrur. Sem dæmi má nefna að epli hafa lægri sykurstuðul en kartöflur, þótt epli innihaldi mikið af einföldum kolvetnum en kartöflur mikið af flóknum kolvetnum eða sterkju. 

Sykurstuðull er mælikvarði frá bilinu 0-100. Stuðllinn mælir áhrif tiltekinnar fæðu á blóðsykur. Fæða með háan sykurstuðul veldur hraðri og mikilli hækkun á blóðsykri en fæða með lágan sykurstuðul veldur minni og hægari hækkun á blóðsykri. Hreinn sykur (glúkósi) hefur sykurstuðulinn 100. Fæða með sykurstuðul yfir 70 er talin hafa háan sykurstuðul. Fæða með sykurstuðul á bilinu 55-69 er talin hafa meðalháan sykurstuðul. Ef sykurstull er lægri en 55 er hann talinn lágur.

Ýmislegt annað en kolvetnin sjálf hefur áhrif á sykurstuðulinn. T.d. hefur magn fitu og eggjahvítu í fæðunni áhrif. Fita lækkar yfirleitt sykurstuðulinn. Þetta skýrir hvers vegna súkkulaði og rjómaís hafa lægri sykurstuðul en búast má við. Þá geta fituríkar kartöfluflögur haft lægri sykurstuðul en fitusnauðar. Mikið trefjamagn lækkar einnig sykurstuðul því frásog sykurs frá meltingarvegi verður hægara. Heilkornavörur hafa að jafnaði lágan sykurstuðul vegna mikils trefjamagns. Matargerðin sjálf hefur einnig áhrif á sykurstuðulinn. T.d. hafa bakaðar kartöflur talsvert hærri sykurstuðul en soðnar kartöflur. Þá virðist sem soðnar kartöflur hafi lægri sykurstuðul ef þær eru borðaðar kaldar en ef þær eru borðaðar heitar. 

Fæða með meðalháan sykurstuðul

  • Músli   56
  • Mangó   56
  • Soðnar kartöflur   56
  • Basmati hrísgrjón   58
  • Hunang   58
  • "Digestive" kex   59
  • Pizza með osti og tómötum   60
  • Rjómaís   61
  • Nyjar kartöflur   62
  • Coca Cola   63
  • Rúsínur   64
  • Kúskús   65
  • Rúgbrauð   65
  • Ferskur ananas   66
  • Croissant   67
  • Mars súkkulaði   68 
  • Weetabix   69
  • Heilkornabrauð  69 



Hvers vegna skiptir sykurstuðull máli?

Talið er að ef þú neytir matvæla með lágan sykurstuðul berist sykurinn jafnt og þétt inn í blóðrásina og því verði sveiflur í blóðsykri litlar. Þetta leiðir til nokkuð jafns og stöðugs framboðs á orku sem hefur þau áhrif að mettunartilfinningin endist lengur og þú ert óliklegri til að finna til svengdar fljótt. Hins vegar veldur fæða með háan sykurstuðil hraðri hækkun á blóðsykri sem endist skemur. Þetta getur leitt til svengdar og þreytutilfinningar skömmu síðar og því er líklegra að þú fáir þér aukabita. Þetta getur leitt til hegðunarmynsturs sem stuðlar að ofþyngd og offitu. Þá leiðir mikil blóðsykurhækkun til aukinnar framleiðslu á insúlíni. Þetta getur leitt til þess að lifrin er líklegri til að umbreyta sykri í fitu en ella. 

GI mataræðið

GI mataræðið gengur út á að neyta fæðu með lágan sykurstuðul og forðast fæðu með háan sykurstuðul. Í flestum tilvikum er einnig mælt með hóflegri eða lítilli fituneyslu, þó er þetta nokkuð mismunandi. Fremur er þó mælt með neyslu fjölómettaðra fitusýra en mettaðrar (harðrar) fitu. Yfirleitt er ekki mælt með fæðu sem inniheldur mikla fitu, þótt hún hafi lágan sykurstuðul - t.d. mjólk eða súkkulaði.

Sykurstuðullinn lýsir áhrifum fæðutegunda á blóðsykur þegar þær eru borðaðar einar og sér. Þanng getur annar matur sem þú borðar með haft áhrif á sykurstuðulinn. Margir sérfræðingar hafa talið þetta einn af megingöllum GI mataræðisins. Hins vegar er ljóst að því meira sem þú hefur á diskinum þínum af fæðu með lágan sykurstuðul, því lægri verður heildarsykurstuðull máltiðarinnar.

Fæða með háan sykurstuðul

  • Kartöflumús   70
  • Hveitibrauð   70
  • Vatnsmelóna   72
  • Beygla   74
  • Cheerios   74
  • Franskar kartöflur   75
  • Kartöfluflögur 75
  • Kleinurhringir  76
  • Coco Pops   77
  • Rískökur   82
  • Rice krispies   82
  • Corn Flakes   84
  • Bakaðar kartöflur   85
  • Baguette   95
  • Soðin hvít hrísgrjón   98

GI mataræðið hefur yfirleitt talsverð áhrif á líkamsþyngd. Flestar rannsóknir benda til að fólk megi búast við því að léttast um hálft til eitt kíló á viku, a.m.k. fyrstu vikurnar, ef það tileinkar sér GI aðferðina. Þetta á auðvitað stóran þátt í vinsældum þessa mataræðis. GI mataræðið er einnig talið gott mataræði ef þú ert með sykursýki eða forstig hennar. Rannsóknir benda einnig til að þetta mataræði geti haft jákvæð áhrif á blóðfitur. 

GI mataræði inniheldur yfirleitt mikið af grænmeti og ávöxtum. Þetta tryggir að þú færð mikilvæg vítamín. Þú þarft að forðast einföld unnin kolvetni og sykur. Sælgæti, kex, kökur og sykraðir gosdrykkir eru því á bannlistanum. Heilkorn eru æskileg. Mælt er með að þú veljir heilkornapasta og hýðishrísgrjón umfram hvítt pasta og hvít hrísgrjón. 


Niðurstaðan

GI mataræðið snýst alfarið um sykurstuðulinn og val á fæðu með lágan sykurstuðul. Gert er ráð fyrir að kolvetna sé neytt í ríkum mæli og því er ekki óeðlilegt að mælt sé með hóflegri eða lítilli fituneyslu. Mataræðið hvetur til neyslu á afurðum sem allmennt eru taldar hollar eins og grænmeti, ávextir, trefjar og heilkorn. Varað er við neyslu á sykri og einföldum unnum kolvetnum. Þú getur búist við því að léttast á GI mataræðinu, þótt það fari auðvitað eftir hitaeiningafjölda og hversu mikil brennslan er. 

Hér má finna frekara lesefni um GI mataræðið:

The GI diet

The GI diet guide

Glycemicindex.com

Lycopen 

15091483 m

Á tíunda áratug síðustu aldar hófu finnskir vísindamenn rannsókn á magni Lycopens í blóði rúmlega þúsund karlmanna. Lycopen tilheyrir flokki karotena, en þau er alfarið að finna í jurtaríkinu. Mörg karoten hafa sterkan lit. Rauða litin í tómötum, papriku, vatnsmelónum, papaja-aldin og rauðu greipaldin má rekja til lycopens. Nokkrar rannsóknir hafa bent til að neysla karotena dragi úr hættunni að fá heilablóðfall, en talsvert misræmi er á milli rannsókna. Karoten hafa sterk andoxunaráhrif sem hugsanlega getur verið heilsusamlegt og dregið úr hættunni á hjarta-og æðsjúkdómum. Finnsku vísindamönnunum lék forvitni á að vita hvort magn lycopens og nokkurra annarra karotena í blóði gæti spáð fyrir um hættuna á að fá heilablóðfall. Niðurstöður rannsóknarinnar má finna í nýjasta tölublaði vísindatímaritsins Neurology. 

Rannsóknin náði til 1.301 finnskra karlmanna. Magn lycopens var mælt í blóði í upphafi rannsóknarinnar. Einnig var magn alfa-og beta karotens mælt auk magns A-vítamíns og E vítamíns, en þessi efni tilheyra flokki karotena. Mönnunum var síðan fylgt eftir í rúmlega tólf ár. Tíðni heilablóðfalla reyndist 55 prósent lægri meðal karlmanna sem höfðu hæst lycopen magn í blóði borið saman við þá sem höfðu lægstu gildin. Leiðrétt var tölfræðilega fyrir aðra áhættuþætti sem gætu haft áhrif, svo sem aldur, líkamsþyngdarstuðul, blóðþrýsting, reykingar, sykursýki og fyrri sögu um heilablóðfall. Ekki reyndist vera samband á milli tíðni heilablóðfalla og magns alfa-og beta karotens né A-vítamíns og E vítamíns.

Rannsókn sem þessi sannar ekki orsakasamband á milli lycopen magns í blóði og heilablóðfalla. Hins vegar telja höfundar rannsóknarinnar að niðurstöðurnar séu vísbending um að slíkt samband geti verið til staðar. Hugsanlegt er að andoxunareiginleikar, blóðþynnandi og bólgueyðandi áhrif lycopens geti verið verndandi fyrir æðakerfið og þannig dregið úr hættunni á heilablóðfalli. Ekki er  ljóst hvaða einstaklingar höfðu hátt magns lycopens í blóði, en líklegt verður að telja að það hafi verið einstaklingar sem neyttu efnisins í ríkum mæli. 

Sérfræðingar sem fjallað hafa um rannsóknina víða í fjölmiðlum í dag telja að niðurstöðurnar styrki núverandi ráðleggingar um að neyta beri grænmetis og ávaxta í ríkum mæli daglega. Þá er rétt að minna á að reykingar lækka lycopen magn í blóði, en reykingar eru mjög sterkur áhættuþáttur heilablóðfalla. 

Hvað sem segja má um framkvæmd rannsóknarinnar er ljóst að tiltölulega einfalt mál er að hækka lycopen magnð í blóðinu. Borðaðu tómata, rautt greip, rauða papriku, papaya-aldin, gulrætur og aprikósur. Hver veit nema það eigi eftir að forða þér frá heilablóðfalli.

Lýsi, fiskmeti og forvarnir

8343962 m

Í gegnum tíðina hefur lýsi gegnt mikilvægu hlutverki í daglegu lífi Íslendinga. Margir muna þá tíð þegar lýsispillur voru gefnar öllum börnum daglega í grunnskólum. Á þessum tíma byggðist tiltrú okkar á lýsinu ekki á vísindalegum rannsóknum, heldur áralangri hefð og reynslu kynslóðanna. Þótt nokkrar rannsóknir hafi verið gerðar á áhrifum lýsis á heilsu og sjúkdóma, skortir enn talsvert á vísindalega þekkingu okkar á þessu sviði. Í ljósi þess hversu stór þáttur lýsið er í daglegu mataræði okkar, er mikilvægt að auka þekkinguna á áhrifum þess á hjarta-og æðasjúkdóma sem eru algengasta dánarorsök Íslendinga. Áhugavert er að velta fyrir sér áhrifum lýsis á áhættuþætti eins og blóðfitur og blóðþrýsting. 

Nýleg íslensk rannsókn bendir til þess að lýsisneysla geti haft jákvæð áhrif á blóðþrýsting meðal eldri einstaklinga. Niðurstöður rannsóknarinnar eru birtar í nýjasta hefti Læknablaðsins. Fyrsti höfundur greinarinnar, sem ber heitið "Fæðuvenjur og fylgni við blóðþrýsting meðal eldri Íslendinga", er Atli Arnarson næringarfræðingur. Mataræði 236 þátttakenda á aldrinum 65 til 91 árs var kannað með þriggja daga fæðuskráningu. Blóðþrýstingur var mældur hjá öllum þátttakendum í upphafi rannsóknarinnar. 

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að þáttakendur hafi fengið meira en lágmarksskammt af flestum nauðsynlegum næringarefnum. Algengustu efni sem neytt var í of litlu magni voru D-vítamín, joð, B-6 vítamín og járn. Marktæk neikvæð fylgni var á milli lýsisneyslu og slagbilsþrýstings. Þetta þýðir að efri mörk blóðþrýstings voru lægri eftir því sem lýsisneysla var meiri. Leiðrétt var fyrir þætti sem gætu haft áhrif á niðurstöðurnar, eins og kyn, aldur, þyngdarstuðul og inntöku blóðþrýstingslækkandi lyfja. Sams konar tengsl sáust á milli slagbilsþrýstings og neyslu á löngum ómega-3 fitusýrum. Höfundar greinarinnar álykta að jákvæð áhrif lýsis á blóðþrýsting megi rekja til ómega-3 fitusýranna. Kemur þetta heim og saman við nokkrar aðrar erlendar rannsóknir.

Hár blóðþrýstingur er einn af þekktum áhættuþáttum hjarta-og æðasjúkdóma. Fjöldi rannsókna hefur sýnt að lyfjameðferð háþrýstings leiðir til fækkunar á heilablóðföllum og kransæðaáföllum. Þótt niðurstöður ofangreindrar rannsóknar sanni ekki orsakasamband milli blóðþrýstings og lýsisneyslu, álykta höfundar greinarinnar að "telja megi líklegt að lýsisneysla eða neysla annnarra fæðubótarefna sem innihalda fiskiolíur, lækki blóðþrýsting meðal eldra fólks og hafi þannig jákvæð áhrif á heilsufar". Höfundarnir benda þó á að rétt sé að fara varlega í að yfirfæra þessar rannsóknir á aðra hópa, t.d. bendi íslensk rannsókn frá árinu 2006 til þess að neysla á löngum ómega-3 fitusýrum geti hækkað blóðþrýsting meðal barnshafandi kvenna. 

Í tilefni af birtingu ofangreindrar rannsóknar skrifar Margrét Leósdóttir hjartalæknir áhugaverða ritstjórnargrein í Læknablaðið sem ber heitið "Fiskneysla og forvarnir". Þar bendir Margrét á stóra, nýlega erlenda rannsókn sem ekki sýndi jákvæð áhrif ómega-3 neyslu á tíðni hjarta-og æðasjúkdóma. Rannsókn þessi vakti mikla athygli, enda niðurstöðurnar ekki í samræmi við það sem margir fræðimenn hafa haldið fram. Margrét bendir hins vegar á að fjöldi rannsókna sýni ótvírætt fram á gagnsemi fiskneyslu. Evrópsku hjartasamtökin mæla með því að fiskur sé borðaður a.m.k. tvisvar í viku til að draga úr hættu á hjarta-og æðasjúkdómum. 

Margrét bendir á að því miður hafi dregið úr fiskneyslu Íslendinga síðustu árin, sérstaklega meðal ungs fólks. Jafnframt benda rannsóknir til þess að lýsisneysla sé mun minni meðal ungs fólks en eldra fólks hér á landi. "Lítil neysla á fiski og lýsi meðal ungs fólks er áhyggjuefni, í samfélagi þar sem offita og hreyfingarleysi eru stór vandamál".

Þótt enn sé margt óljóst um áhrif ómega-3 fitusýra á tilurð hjarta-og æðasjúkdóma er full ástæða til að hvetja unga sem aldna Íslendinga til þess að borða fisk og lýsi í ríkum mæli. Heilsusamleg áhrif fiskneyslu eru ótvíræð, fiskur er frábært hráefni til matargerðar og lostæti ef rétt er á málum haldið. Þá er ljóst að fá fæðubótarefni eru betri en lýsið þegar horft er til hollustunnar.


© Axel F Sigurdsson 2012