Af hverju eru Íslendingar feitastir?

13109334 m-1

Íslendingar eru feitastir Norðurlanda-þjóða. Offita meðal fullorðinna er rúmlega tvisvar sinnum algengari hér á landi en í Noregi. Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu sem inniheldur fyrstu niðurstöður úr gagnaöflun um mataræði, hreyfingu og holdafar á Norðurlöndunum. Þessu metnaðarfulla lýðheilsuverkefni var hrint af stað að frumvæði hinnar svokölluðu Norrænu ráðherranefndar. Verkefnið er talið mikilvægur liður í Norrænu aðgerðaráætluninni sem hefur það markmið að bæta heilsu og lífsgæði Norðurlandabúa með bættu mataræði og aukinni hreyfingu. Margt  áhugavert kemur fram í skýrslunni um mataræði, holdafar og hreyfingu Norðurlandabúa. Skýrslan sjálf er 168 blaðsíður en hægt er að lesa stutta íslenska samantekt um niðurstöðurnar hér.

Könnunin var viðtalskönnun sem fór fram í síma en það er talin vera aðferð sem er einföld og fljótleg í framkvæmd. Yfir níu þúsund fullorðnir á aldrinum 18-65 ára og tæplega 2.500 börn á aldrinum 7-12 ára tóku þátt í könnuninni. 


Holdafar

Í töflunni hér að neðan má niðurstöður könnunarinnar um líkamsþyngdarstuðul (BMI) fullorðinna einstaklinga á Norðurlöndunum. 

       Holdafar fullorðinna Norðurlandabúa

                                            Danmörk      Finnland      Svíþjóð       Ísland       Noregur

  •  % með ofþyngd              32.8             37.2            34.2         39.3           36.1                                                                              
  •  % með offitu                  12.0             14.0            10.2         17.8            8.7                                                                                             
  •  % yfir kjörþyngd             44.8             51.2            44.2         57.1           44.8                                                                                    

Ofþyngd (overweight) er skilgreind sem BMI 25.0-29.9. Offita (obesity) er skilgreind sem BMI > 30

Taflan sýnir nokkuð greinilega muninn á holdafari Íslendinga og nágranna okkar, Svía, Normanna og Dana. Finnar lenda þarna mitt á milli, en nokkuð sláandi er hvers miklu algengari ofþyngd og offita eru á Íslandi en hinum Norðurlöndunum. Munurinn er tölfræðilega marktækur. 

Alemennt var líkamsþyngdarstuðull hærri meðal karla en kvenna og könnunin sýnir að líkamsþyngdarstuðull fer hækkandi með aldri.

Í íslensku samantektinni um skýrsluna kemur fram að "fjöldi barna sem flokkast í offitu var svipaður í öllum fimm löndunum eða 2-4%". Þegar tölurnar eru skoðaðar nánar má þó sjá að full ástæða er fyrir Íslendinga að vera á varðbergi, þótt munurinn á milli landa sé ekki tölfræðilega marktækur. 

       Holdafar barna (7-12 ára) á Norðurlöndum

                                            Danmörk      Finnland      Svíþjóð       Ísland       Noregur

  •  % með ofþyngd              9.3             12.6            12.8         15.1           12.0                                                                          
  •  % með offitu                  2.3               3.5             2.4           3.5              2.4                                                                                           
  •  % yfir kjörþyngd            11.6             16.1           15.2         18.6          14.4                                                                                        

Ofþyngd (overweight) er skilgreind sem BMI 25.0-29.9. Offita (obesity) er skilgreind sem BMI > 30

Fita

Tegund viðbits, þ.e. með hverju við smyrjum brauðið okkar, var skoðuð sérstaklega. Nokkur munur var á milli landanna í þessum efnum. Fituminna viðbit var almennt notað meira í Svíþjóð, Noregi og Íslandi. Nokkuð hátt hlutfall Norðmanna (29%) og Dana (40%) notar hins vegar ekkert viðbit. Olía var mest notaða fitan við matargerð. Norræna aðgerðaráætlunin hefur sett sér ákveðin markmið til að draga úr neyslu mettaðrar fitu og transfitu. Sú staðreynd að hátt hlutfall þátttakenda notaði olíu við matargerð og fituminna viðbit eða jafnvel ekkert, er talin benda til að þróunin sé á leið í átt að settum markmiðum. Ekkert bendir til að fituneysla sé meiri hér á landi en á hinum Noðrurlöndunum, né heldur að við neytum meira af mettaðri fitu eða transfitu. 

Booking.com

Kornmeti

Könnunin bendir til að Íslandingar borði minna af hvers konar brauði en aðrir Norðurlandabúar. Neysla á hvitu brauði var almennt lítil meðal Norðurlandabúa en þó hlutfallslega mest hér á landi. Könnunin tók ekki til annars kornmetis en brauðs. Framtíðarsýn norrænu aðgerðarátlunarinnar miðar að því að auka hlutfall heilkorna í brauði og öðru kornmeti. 


Ávextir og grænmeti

Neysla grænmetis og ávaxta var sambærileg í öllum löndunum. Íslendingar virðast því ekki borða minna af ávöxtum og grænmeti en aðrir Norðurlandabúar. Hins vegar er neysla þessarra fæðutegunda enn talsvert minni en mælt er með og vantar mikið upp á að markmiðum norrænu aðgerðaráætæunarinnar sé náð hvað þetta varðar. 


Sykur

Kökur, sykraðir drykkir, súkkulaði og sælgæti er borðað reglulega á öllum Norðurlöndum. Einungis 3-4 prósent neyta sætinda sjaldnar en einu sinni í mánuði. Um helmingur Norðurlandabúa neytir sykraðra drykkja reglulega sem verður að teljast mikið. Mest neysla á sætindum var á Íslandi en minnst í Svíþjóð. 


Fiskur

Fsikneysla er mest á Íslandi og í Noregi. Helmingur fólks í þessum löndum borðar fisk a.m.k. tvisvar í viku sem er tvöfalt meira en í Danmörku. Íslendingar né lengst Norðurlandaþjóða í að fylgja markmiðum norrænu aðgerðarátlunarinnar varðandi fiskneyslu. 


Hollustustuðull

Reiknaður var svokallaður hollustustuðull en honum er ætlað að meta gæði mataræðisins s.k.v. skilgreiningu norrænu aðgerðaráætlunarinnar um hvað sé æskilegt mataræði og hvað sé óæskilegt. Sé þessi aðferð notuð kemur í ljós að Íslendingar og Svíar eru með lægstan hollustustuðul og því óhollasta mataræðið. Alemnnt höfðu konur hollari neysluvenjur en karlmenn. Þetta byggist aðallega á því að þær borða meira af ávöxtum og grænmeti, drekka minna of sykruðum drykkjum og borða meira af því sem skilgreint er sem holl fita. 


Hreyfing

Svíar og Finnar reyndust hreyfa sig mest samkvæmt könnuninni og er hlutfall þeirra sem uppfylla ráðleggingar um lágmarkshreyfingu þar um 70 prósent. Hér á landi er þetta hlutfall um 65 prósent. Hlutfall þeirra sem stunda enga hreyfingu er hæst á Íslandi, um 14 prósent en lægst í Finnlandi (8 prósent) og Svíþjóð (9 prósent). Karlar eru líklegri til að stunda enga hreyfingu en konur. Yngstu aldurshóparnir hreyfa sig mest. 


Hvers vegna eru Íslendingar feitastir?

Það er sannarlega áhyggjuefni hversu miklu algengari ofþyngd og offita eru hér á landi en annars staðar á Norðurlönunum. Offitu fylgir aukin tíðni á sykursýki og hjarta-og æðsjúkdómum. Jafnframt eykur offita líkurnar á mörgum öðrum langvinnum heilsufarsvandamálum. Þetta mun gera auknar kröfur til íslensks heilbrigðiskerfis á komandi árum og er þar af litlu að taka þegar kemur að krónum og aurum. Það er því verðugt verkefni fyrir íslensk lýðheilsuyfirvöld að taka í taumana og snúa þróuninni við. Þetta er eitt af mikilvægustu lýðheilsuverkefnum þjóðarinnar í dag.

Geta niðurstöður Norrænu könnunarinnar sagt okkur eitthvað um hvers vegna offita er algengari hér á landi en á hinum Norðurlöndunum? Það sem helst skilur okkur frá hinum Norðurlandaþjóðunum í könnunni er minni brauðneysla, meiri fiskneysla, meiri sykurneysla og minni hreyfing. Fituneysla er ekki meiri eða verri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Neysla hitaeininga var ekki skoðuð sérstaklega. Hugsanlegt er að Íslendingar innbyrði hreinlega meira magn hitaeininga en aðrar Norðurlandaþjóðir. Þá er einnig ljóst að sykurneysla barna og fullorðinna hér á landi er vandamál og vafalítið einn af þeim þáttum sem skýra vaxandi tíðni offitu hér á landi. Víða í samfélögum sem glíma við offitu hefur verið gripið til aðgerða til að draga úr sykurneyslu. Nýlega ákvað Michael R. Bloomberg borgarstjóri í New York að banna sölu á gosdrykkjum í ílátum stærri en 470 ml sem er tæpur hálfur lítri. Megintilgangur þessarra aðgerða er að draga úr offitu. 

Lýðheilsuyfirvöld hafa gefið út nokkuð skýrar leiðbeiningar til Íslendinga um hvað sé hollt og æskilegt mataræði. Ef allir Íslendingar fylgdu þessum leiðbeiningum væri offita vafalítið minna vandamál hér á landi. Forvarnir snúast þó um annað og meira en að gefa leiðbeiningar. Leiðbeiningarnar þurfa að vera þess eðlis að fólk geti farið eftir þeim og grípa þarf til aðgerða til að fá fólk til að fylgja ráðleggingum. Einnig þarf að fara fram ítarleg greiningarvinna til að skýra vaxandi tíðni offitu hér á landi. Það er mikið i húfi fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi og íslenskt samfélag.


© Axel F Sigurdsson 2012