Offita. Hvar stöndum við?

6388297 m

Offita er algengt heilsufarsvandamál víða á Vesturlöndum, ekki síst í Bandaríkjunum. Þetta vandamál hefur einnig farið hratt vaxandi á Norðurlöndunum undanfarin ár, þar með talið á Íslandi. Nýlegar rannsóknir benda til þess að um þriðjungur fullorðinna Bandaríkjmanna (34 prósent) þjáist af offitu.  í grein sem birt var nýverið í American Journal of Preventive Medicine kemur fram að reiknað er með að tíðni offitu muni aukast enn frekar á næstu árum og verði um 42 prósent meðal fullorðinna Bandaríkjamanna árið 2030. Vandamálið er ekki síst alvarlegt í ljósi þess að aukinni offitu mun fylgja aukin tíðni sykursýki og hjarta-og æðasjúkdóma. Þessir sjúkdómar eru vandmeðhöndlaðir og dýrir fyrir samfélagið.

Niðurstöður áhugaverðrar og metnaðarfullrar rannsóknar á holdafari 18 ára íslenskra framhaldsskólanema voru birtar í síðasta hefti Læknablaðins. Fyrsti höfundur greinarinnar er Sigurður Árni Arngrímsson þjálfunarlífeðlisfræðingur. Niðurstöður rannsóknarinnar voru að samkvæmt líkamsþyngdarstuðli (BMI) voru 23 prósent nemenda of þungir/feitir, 20 prósent höfðu of mikið mittismál og 51prósent greindust með of hátt hlutfall líkamsfitu. Hlutfallslega fleiri drengir (33 prósent) en stúlkur (22 prósent) voru of feitir. Einungis 34 prósent ungmennanna náðu ráðlagðri hreyfingu dag hvern. Nemendur í verknámsskólum virtust verr á sig komnir en nemendur í bóknámsskólum. Ekki var gerð sérstök úttekt á mataræði framhaldsskólanemanna en höfundar telja að kyrrseta eigi verulegan þátt í slæmu líkamsástandi þeirra. Talið er að stór hluti íslenskra barna og unglinga uppfylli ekki hreyfiráðleggingar Lýðheilsustöðvar. Höfundarnir telja að hugsanlega megi rekja þessa þróun til aukins sjónvarpsáhorfs, aukinnar tölvuleikjanotkunar og breyttra ferðahátta. 

Kolbeinn Guðmundsson barnalæknir og formaður Félags um innkirtlafræði ritar grein  sem einnig birtist í síðasta tölublaði Læknablaðsins. Þar kemur fram að vaxandi hópur unglinga hér á landi er að birtast með forstig áunninnar sykursýki og jafnvel að greinast með áunna sykursýki. Tvöföldun hefur orðið á tíðni meðgöngusykursýki hér á landi undanfarin ár, sem er beint tengt aukinni þyngd kvenna. Kolbeinn bætir við að þetta hafi í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir mæður og börn þeirra og útgjöld í heilbrigðiskerfinu. Dæmi um önnur vandamál sem tengjast vaxandi tíðni offitu eru blóðfituvandamál, blöðrueggjastokkar og háþrýstingur.

Offita er flókið vandamál sem á sér margþættar orsakir. Þótt margir haldi því fram að vandamálið snúist einungis um hversu margar hitaeiningar þú innbyrðir og hversu mörgum þú brennir, þá er ljóst að vandinn er flóknari en svo. Fyrir um 50 árum síðan kom út bók eftir bandarískan lækni, Herman Taller. Bókin, sem bar heitið Calories Don´t Count, vakti reyndar ekki mikla athygli á þessum tíma. Ein frásögn Tallers hefur þó staðist tímans tönn. Taller var feitur maður alla sína tíð. Hann lýsti sjálfum sér sem "einn af þeim sem ekki gat horft á skál af spagettí án þess að þyngjast". Hann hélt því sjálfur fram að hann borðaði fremur lítið en var að sjálfsögðu ekki trúað. Hann ákvað því að gera litla tilraun.

Taller bauð samstarfsmanni sínum, sem var grannholda og vel á sig kominn, með sér í smáfrí. Þessi kollegi Tallers stórefaðist um að lýsingar Tallers á hversu lítið hann borðaði væru sannar. Hann sagðist hafa heyrt svipaðar lýsingar hjá mörgum sjúklinga sinna sem þjáðust af offitu. Þeir segðust alltaf fitna og fitna þótt þeir borðuðu lítið sem ekkert. Þeir félagar dvöldu saman á litlu sveitahóteli í 10 daga og skildust ekki að. Þessa daga voru þeir á nákvæmlega sama mataræði sem innihélt fáar hitaeiningar, mikið gænmeti og litla fitu. Á kvöldin drukku þeir kokteil, enda voru þeir í fríi. Í lok dvalarinnar hafði hinn grannholda kollegi Tallers lést um tæpt kíló en Taller hafði bætt á sig fjórum kílóum. Þessi litla tilraun Tallers bendir sannarlega ekki til þess að vandinn snúist bara um hitaeiningar. Vissluega var ekki um að ræða eiginlega vísindarannsókn en frásögnin vekur þó ýmsar spurningar.

Áhugavert er að skoða kenningar Robert H. Lustig barnalæknis við Háskólann í San Francisco um tilurð offitu. Hann er sammála því að offita snúist alls ekki um "hitaeiningar út og hitaeiningar inn". Lustig er nú að gefa út seríu stuttra myndbanda sem bera heitið "The Skinny on Obesity" sem gæti útlagst á íslensku sem "Staðreyndir um offitu".  Þótt einhverjir kunni að líta á þetta sem áróðursmyndbönd eru þættirnir vandaðir, áhugaverðir og virkilega fróðlegir. Lustig sker upp herör gegn skyndibitaiðnaðinum og óhóflegu sykuráti. Tilgangurinn helgar meðalið. Þættina geturðu séð hér.

Meðferð offitu ber oft lítinn árangur. Vandmálið er ekki einfalt. Bandarískar rannsóknir sýna að 80 prósent af þeim sem ná að léttast, þyngjast aftur og verða jafnvel enn þyngri en áður en megrunin hófst. Forvarnir eru því gríðarlega mikilvægar. Aukinn skilningur á tilurð offitu, fræðsla til almennings om mataræði, hreyfingu og heilbrigða lífshætti er fyrsta skrefið. Rannsóknir hafa sýnt að 77 prósent af börnum sem eru of feit munu þjást af offitu á fullorðinsárum en aðeins 7 prósent af börnum með eðlilega líkamsþyngd. Ef forða á næstu kynslóð frá offituvandanum þarf gríðarlegt samfélagsátak sem ekki síst þarf að beinast að börnum og unglingum. 

Í þessu samhengi er vert að skoða áhrifaríkan verðlaunafyrirlestur hins þekkta breska matreiðslumanns, Jamie Oliver frá 2010: Jamie Oliver´s TED Prize Wish: Teach Every Child About Food. 

"I wish for everyone to help create a strong, sustainable movement to educate every child about food, inspire families to cook again and empower people everywhere to fight obesity".  Jamie Oliver 2010


© Axel F Sigurdsson 2012