Greinar

Streita og hjartasjúkdómar - Hvað er streita?                         

14491557 m-1

Flestum er ljóst að lífsstíll okkar getur haft mótandi áhrif á heilsuna. Í þessu felast ýmis tækifæri til að auka vellíðan og draga úr líkum á sjúkdómum. Það er í okkar höndum hvað og hversu mikið við borðum, hvort við hreyfum okkur, hvort við reykjum, og hvort og hvernig við notum áfengi. Ýmsum öðrum lífstílsþáttum er þó erfiðara að stýra. Gott dæmi um þetta er streita. Þó er streita sannarlega oft meiri áhrifavaldur á líf okkar og heilsu en við gerum okkur grein fyrir. 

Ég tel afar mikilvægt að skilja eðli streitu og einkenni hennar. Það er forsenda þess að við getum tekist á við vandann. Efnið er hins vegar flókið og of umfangsmikið til að unnt sé að fjalla um það í einni stuttri grein. Ekki vil ég heldur þreyta lesendur með löngum ritgerðum. Því mun ég skipta umfjöllun minni um tengsl streitu við hjarta-og æðasjúkdóma í þrjá hluta. Í þessum hluta fjalla ég um hvað streita er, helstu einkenni streitu og muninn á streituvaldi (stressor) og streituviðbrögðum. Síðar mun ég fjalla nánar um tengslin milli streitu og hjartasjúkdóma og gera grein fyrir nokkrum rannsóknum þar sem þessi tengsl hafa verið skoðuð. Að lokum mun ég fjalla um hvað er til ráða og hvernig við getum brugðist við streitu.

Margar rannsóknir benda til þess að tilfinningaleg streita geti aukið líkurnar á hjarta-og æðasjúkdómum. Langvinn streita hækkar oft blóðþrýsting og hefur neikvæð áhrif á blóðfitur. Streita ýtir undir æðasamdrátt, hvetur til bólgusvörunar í æðakerfinu, eykur blóðsegamyndun og hættuna á hjartaáföllum og skyndidauða.


Hvað er streita?

Einkenni sem rekja má til streitu eru ein algengasta ástæða þess að fólk leitar læknis. Hluti vandans er þó sá að hugtökin "streita" eða "stress" eru notuð á marga mismunandi vegu. Þetta getur stundum leitt til misskilnings. Það er erfitt að skilgreina streitu, hún er vandmæld og að takast á við hana er oft tímafrekt og flókið. Þess vegna höfum við gjarnan tilhneigingu til að horfa frjamhjá vandamálinu og jafnvel afneita því. Við lítum oft á streitu sem eitthvað ósýnilegt og óáþreifanlegt, eitthvað sem kemur utan frá og við getum ekki brugðist við. 

Til þess að skilja eðli og umfang streitu þurfum við að gera greinarmun á "streituvaldinum" sem fær líkama okkar til að bregðast við, og streituviðbrögðunum sem eru svar líkamans við hinu ytra áreiti. Streituvaldurinn er oftast utanaðkomandi þáttur sem getur komið okkur úr jafnvægi. Þetta getur verið bein aðsteðjandi hætta eins og bíll sem nálgast á mikilli ferð þegar við erum að fara yfir götu. Streituvaldurinn getur líka verið allt annars eðlis, t.d. miklar annir í vinnu, hjónabandsörðugleikar eða ástvinamissir. Svörun líkamamans eða streituviðbrögðin eru hins vegar nokkuð svipuð, hver sem streituvaldurinn er. 

9435324 m

Þegar streituvaldur setur okkur úr jafnvægi ræsast ýmis varnarkerfi líkamans. Virkni "sympatiska" hluta ósjálfráða taugakerfisns eykst og nýrnahetturnar framleiða meira af adrenalíni og sterahormónum (t.d. kortisól) sem leita út í blóðið. Við getum ímyndað okkar aðstæður þar sem við mætum grimmu villdýri á göngu okkar. Við þessar aðstæður eru streituviðbrögð fullkomlega eðlileg og geta bjargað lífi okkar. Villidýrið er streituvaldurinn, svar líkamans eru streituviðbrögðin. Kortisól og adrenalín streyma út í blóðið. Hjartsláttarhraði eykst og blóðþrýstingur hækkar. Sykurmagn í blóði hækkar því við þurfum á einfaldri orku eða eldsneyti að halda. Öndun verður hraðari því vefir líkamans klalla á meira súrefni. Vöðvaspenna eykst. Öll skilningarvit eru fullvirkjuð. Við erum tlbúin til að flýja eða berjast til að bjarga lífi okkar. 

Af þessu er augljóst að streituviðbrögðin eru mikilvægur hluti varnarkerfis líkamans og gera okkur kleift að bregðast við aðsteðjandi hættu. Við verðum einbeitt, orkumikil og á varðbergi. Sömu líkamlegu viðbrögð geta einnig verið hjálpleg við aðrar kringumstæður. Þau koma að gagni við krefjandi aðstæður í vinnu þar sem leysa þarf erfið verkefni. Þau hjálpa ræðumanninum í pontunni, leikaranum á sviðinu, lækninum í skurðaðgerðinni, og íþróttamanninum á hlaupabrautinni.

Hins vegar kemur oft að tímapunkti þar sem streituviðbröðgin verða svo mikil eða langdregin að þau fara að hafa skaðleg áhrif á heilsu okkar. Við þessar kringumstæður getur streitan dregið úr virkni okkar og valdið vanlíðan. Lífsgæði versna og hættan eykst á ýmsum sjúkdómum svo sem hjarta-og æðasjúkdómum. 

Hvernig upplifum við streitu?

Hvað á fólk við þegar það telur sig þjást af streitu? Stundum kvörtum við yfir sjálfum streituvaldinum. Við tölum um persónuleg áföll, fjármálaerfiðleika, erfiðleika í hjónabandi eða slæmt vinnuumhverfi. Mikilvægt er að átta sig á því að streituvaldar sem eru i eðli sínu jákvæðir geta einnig valdið streituviðbrögðum. Kannski ertu að skipuleggja fermingarveislu eða stórafmæli. Kannski ertu að fara í sjónvarpsviðtal vegna áfanga sem þú hefur náð. Kannski ertu að taka þátt í íþróttakeppni, skákmóti, bridds eða golfmóti. Þetta eru væntanlega hlutir sem þú hefur ánægju af en sú staðreynd að um mót eða formlega keppni er að ræða leiðir oft til streituviðbrgða. Þannig geturðu upllifað streitueinkenni eins og einbeitingarörðugleika, svitamyndun, hraðan hjartslátt og svefnörðugleika. Flestir þekkja viðkvæðið "ég fór á taugum", þegar illa gengur, eða jafnvel þegar vel gengur. Eitt af meginhlutverkum íþróttasálfræðinga er að hjálpa íþróttamanninum að stjórna sínum streituviðbrögðum.

Stundum tengjum við hins vegar kvartanir okkar alls ekki við streitu. Í staðinn kvörtum við um líkamleg einkenni eins og hjartsláttartruflanir, kviðverki, ógleði, niðurgang eða öndunarörðugelika. Sumir kvarta um kvíðatilfinningu og svefntruflanir. 

Það er gagnlegt að gera greinarmun á bráðum og langvinnum streituvöldum. Dæmi um bráða streituvalda eru náttúruhamfarir eins og jarðskjálftar og snjóflóð, skyndilegur ástvinamissir, brotrekstur úr vinnu eða skyndileg fjárhagsleg áföll. Dæmi um langvinna streituvalda eru mikið vinnuálag, óhamingja í hjónabandi og langvinnir fjárhagserfiðleikar

Viðbrögð okkar við mismunandi streituöldum eru sannarlega mismunandi og einstaklingsbundin. Þannig erum við misvel í stakk búin til að takast á við streituvaldinn. Þetta veltur á einstaklingnum sjálfum, presónugerð hans, lífsstíl og umhverfisþáttum. Einstaklingur sem hefur sterk fjölskyldu- eða vinatengsl getur átt auðveldara með að takast á við streituvalda en einstaklingur sem er félagslega einangraður. Gott dæmi um þetta er sagan af Roseto fólkinu sem ég mun fjalla um í næstu grein.

Barbara H Roberts á Íslandi

barbararobertsauthorphoto-1

Þriðjudaginn 18. júní n.k. kl. 20:00 mun bandaríski hjartalæknirinn Barbara H Roberts flytja fyrirlestur á Hótel Hilton Reykjavik Nordica.

Fyrirlesturinn ber heitið: “How To Keep From Breaking Your Heart: What Every Woman Needs to Know About Cardiovascular Disease”.

Barbara H Roberts fæddist í New York  árið 1944. Hún nam hjartalækningar við Yale University, New Haven og Harvard University í Boston. Frá árinu 2002 hefur hún veitt forstöðu sérstakri deild á Miriam Hospital, Rhode Island sem helgar sig forvörnum, greiningu og meðferð hjartasjúkdóma meðal kvenna.

Barbara hefur skrifað tvær bækur um hjarta-og æðasjúkdóma ætlaðar almenningi. Hún er mikil áhugamaður um forvarnir og hefur lagt áherslu á að lykilinn að því að forðast hjarta-og æðasjúkdóma sé að finna í heilbrigðum lifsstíl og réttu mataræði.

Það er Íslendingum mikill fengur að fá Barböru hingað til lands. Fyrirlestur hennar er öllum opinn. Koma hennar er styrkt af GoRed á íslandi, Hjartaheillum, Hjartamiðstöðinni, Heilaheillum, Icelandair og Icelandair Hotels.

Aðgangur er ókeypis.

Fastað með hléum - 5:2 aðferðin

14058938 m

Á mánudögum og fimmtudögum borðar Michael Mosley morgunverð sem samanstendur af tveimur eggjum og skinkubita. Það sem eftir er dags drekkur hann mikið vatn, te og svart kaffi. Hann borðar ekkert í hádeginu. Um kvöldmatarleitið fær hann sér vænan skammt af grænmeti og smásneið af laxi. Meira lætur hann ekki ofan í sig þessa tvö daga vikunnar. Þetta kallar hann að fasta.

Þá tvo daga vikunnar sem Mosley fastar borðar hann 500 - 600 hitaeiningar sem er um fjórðungur þess sem hann borðar aðra daga. Hina daga vikunnar borðar hann nokkurn veginn það sem honum sýnist. Þetta hefur verið kallað 5:2 aðferðin. Aðferðarfræðin byggir á því að fasta með hléum ("intermittent fasting"). Markmiðið er að léttast og bæta heilsuna.

Nýlega gaf Mosley út bók um þetta efni ásamt fréttakonunni og rithöfundinum Mimi Spencer. Bókin ber heitið "The fast diet". Undirtitillin er "Lose weight, stay healthy, live longer". Mosley er læknismenntaður en hefur lengst af starfað sem blaðamaður. Hann er þekktur fyrir þætti sem hann hefur stýrt á BBC og bera heitið "Inside the Human Body". Kenningar Mosleys hafa vakið mikla athygli og nýtur 5:2 aðferðin mikilla vinsælda í Bretlandi í dag. 

Mosley segir að 5:2 aðferðarfræðin hafi verið rannsökuð mikið síðustu 20 árin af virtum fræðimönnum. Ástæða þess að fólk léttist á þessu mataræði er einföld að sögn Mosleys. Maður borðar einfaldlega minna af hitaeiningum þegar á heildina er litið. Mosley telur að mannslíkaminn þoli vel föstu enda hafi maðurinn lengst af sinni þróunarsögu ekki borðað fjórum sinnum á dag, heldur í törnum. Þannig hafi hann borðað mikið þegar framboð á fæðu var gott og mun minna þess á milli. 

Mosley bendir á að 5:2 aðferðin sé aðallega ætluð þeim sem vilja eða þurfa að léttast. Hann bendir á að þessi aðferð sé alls ekki fyrir fólk með sykursýki af tegund 1, ekki fyrir börn, ekki fyrir barnshafandi konur né þá sem eru eru grannir fyrir. Nokkuð ljóst er að flestir léttast þegar 5:2 aðferðin er notuð. Í fyrstu má aðallega rekja þyngdartapið til vökvataps. Mosley telur þó að flestir sem fasta með hléum losni við um háft kíló af fitu á viku. Ekki er alveg eins ljóst hvaða áhrif aðferðin hefur á heilsu fólks að öðru leyti.

Niðurstöður nýlegrar rannsóknar sem Mosley og samstarfsmenn hans hafa gert verða birtar fljótlega í tímaritinu "British Journal of Diabetes and Vascular Disease". Þar kemur fram að 5:2 aðferðin dregur úr bólgusvörun, lækkar blóðsykur og hefur jákvæð áhrif á blóðfitur og blóðþrýsting.

Nú hafa breskir sérfræðingar lýst yfir áhyggjum sínum af vinsældum 5:2 aðferðarinnar. Þeir hafa bent á að um sé að ræða tískufyrirbæri og að ekki sé vitað hvaða áhrif þessi aðferð hefur á heilsuna til lengri tíma. Þeir benda á að það skorti vísindarannsóknir sem sanni að þetta mataræði sé í lagi. Hætta sé á því að fólk borði allt of mikið þá daga sem það fastar ekki og þar með sé þetta gagnslaust. Fylgismenn 5:2 aðferðarinnar taka undir með að mikilvægt sé að missa ekki alveg stjórn á mataræðinu þá daga sem ekki er fastað. 

Tíminn mun væntanlega leiða í ljós hvort 5:2 aðferðin er tískubóla eða gagnlegt verkfæri sem getur hjálpað fólki að léttast og bæta heilsuna. Ekki er ólílklegt að einhverjir Íslendingar muni falla fyrir þessarri aðferðarfræði líkt og nágrannar okkar á Bretlandseyjum.


© Axel F Sigurdsson 2012