Greinar

Enn um egg og hjartasjúkdóma?

4887527 m

Ýmsar rannsóknir benda til að tengsl séu á milli hás kólesteróls í blóði og tíðni hjarta-og æðasjúkdóma. Sérstaklega virðist svokallað LDL-kólesteról (low density lipoprotein cholesterol) tengjast aukinni hættu á þessum sjúkdómum. Þótt hlutverk kólesteróls í tilurð hjarta-og æðasjúkdóma sé ekki fyllilega skilgreint, hefur löngum þótt rétt að mæla gegn mikilli neyslu kólesteróls. Slíkt er talið geta hækkað magn LDL-kólesteróls í blóði og þar með aukið líkurnar á hjarta-og æðasjúkdómum. Bandaríska hjartasjúkdómafélagið (American Heart Association) mælir með því að dagleg neysla kólesteróls í fæðu sé ekki meiri en 300 mg á dag. 

Egg innihalda umtalsvert magn af kólesteróli, í einu eggi eru allt að 210 mg. Því hafa lýðheilsuyfirvöld á vesturlöndum oft varað við eggjaneyslu, nema annarri inntöku kólesteróls sé haldið í lágmarki, annars er hætt við að dagleg neysla kólesteróls fari vel yfir ráðlögð mörk. Hins vegar liggur fyrir að egg eru næringarrík og ódýr fæða sem inniheldur tiltölulega lítið magn af hitaeiningum miðað við næringargildi. Í eggjum er talsvert magn mikilvægra vítamína, steinefna og umtalsvert magn prótína og ómettaðra fitusýra. Ómettaðar fitusýrur geta hugsanlega dregið úr hættunni á að fá hjarta-og æðasjúkdóma. Því hafa möguleg tengsl eggjaneyslu við hjarta-og æðasjúkfóma löngum verið umdeild. 

Nú hafa kínverskir vísindamenn í samvinnu við starfsbræður sína við Harvard háskólann i Boston gert mjög umfangsmikla samantekt (meta-analysis) á rannsóknum sem skoðað hafa tengsl eggjaneyslu og hættunnar á hjarta-og æðasjúkdómum. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar þann 7. janúar s.l. í tímaritinu British Medical Journal .

Samantekt vísndamannanna náði til 17 rannsókna sem skoðuðu tengsl eggjaneyslu við hjartaáföll (kransæðastíflu) annars vegar og heilablóðföll hins vegar. 

Rannsóknin sýndi að engin fylgni er á milli eggjaneysu og tíðni hjartaáfalla. Engar rannsóknir skáru sig úr hvað þetta varðar. Þá fannst heldur engin fylgni milli eggjaneyslu og hættunnar á heilablóðfalli. Í stuttu máli: Þeir sem borðuðu að jafnaði 5-10 egg á viku voru ekki í meiri hættu á að fá hjarta-og æðasjúkdóma en þeir sem borðuðu engin egg. Rannsóknin getur ekki svarað því hvort enn meiri eggjaneysla sé skaðleg.

Þegar sjúklingar með sykursýki voru skoðaðir sérstaklega virtist sem tengsl væru á milli eggjaneyslu og hættunnar á hjartaáfalli. Hins vegar virtist minni hætta vera á heilablóðfalli hjá sykursjúkum eftir því sem eggjaneysla var meiri. Vísindamennirnir benda þó á að þessar niðurstöður beri að túlka varlega, enda sé hér um mun færri einstaklinga að ræða en í heildarhópnum. Fleiri rannsóknir þurfi til að varpa frekara ljósi á þessar niðurstöður.

Rétt er að benda á að þótt egg innihaldi mikið af kólesteróli, leiðir eggjaneysla til mjög óverulegrar hækkunar á kólesterólmagni í blóði. Þó er rétt að taka fram að þetta getur verið einstaklingsbundið og getur eggjaneysla hækkað kólesterólmagn í blóði hjá sumum einstaklingum. Í þessum tilvikum er hins vegar líklegt að hækkun verði bæði á LDL og HDL kólesteróli, en það síðarnefnda er talið verndandi. Þá hafa margar rannsóknir sýnt að mjög veik tengsl eru á milli neyslu kólesteróls og hættunnar á hjarta- og æðasjúkdómum. Rannsóknir hafa einnig bent til að eggjaneysla geti aukið magn stórra LDL agna sem getur dregið úr hættunni á hjarta-og æðasjúkdómum. 

Í bæklingi Hjartaverndar um kólesteról, sem má finna hér, má lesa eftirfarandi texta: "Hrogn og eggjarauður, hvort heldur eru úr hænueggjum eða svartfuglseggjum, eru hins vegar kólesterólríkustu fæðutegundir sem völ er á. Því er skynsamlegt að takmarka neyslu þeirra við tvö til þrjú egg í viku."

Í bæklingi Landlæknisembættisins, sem má finna hér, má lesa eftirfarandi: "Því er rétt að takmarka neyslu fæðutegunda sem hafa mest kólesteról, en það eru fyrst og fremst eggjarauða, lifur, hjörtu og nýru".

Margt bendir til að endurskoða þurfi ofangreindar leiðbeiningar í ljósi nýrrar þekkingar.

Konur, ber og hjartasjúkdómar

14879183 m

Ýmsar rannsóknir benda til þess að áhættuþættir hjarta-og æðasjúkdóma séu ekki alveg þeir sömu hjá körlum og konum. Áhættuþættir kransæðasjúkdóms hafa löngum verið óljósari meðal kvenna en karla. Ekki síst á þetta við þegar kemur að mataræði. Nýleg rannsókn á 93.600 konum sem birt var í dag í hinu virta bandaríska læknatímariti Circulation kann að hafa varpað einhverju ljósi á þessi mál. Þó er það oft eðli vísindarannsókna að þær vekja upp fleiri spurningar en þær svara.

Vísindamenn við Harvard háskólann í Boston fylgdu konunum sem voru á aldrinum 25-42 ára eftir í 18 ár. Konurnar svöruðu spurningalista um mataræði á 4 ára fresti. Alls fengu 405 þessarra kvenna hjartaáfall (kransæðastíflu) á tímabilinu. Tíðni þessarra áfalla var 32 prósent lægri meðal kvenna sem borðuðu mikið af efnum sem kallast anthocyanin. Þessi efni er að finna í ríkulegu magni í bláberjum og jarðarberjum. Anthocyanin má einnig finna í eggaldin, greip, lárperum, mangó, ólífum, rauðlauk og sætum kartöflu . 

Talið er að anthocyanin geti víkkað út slagæðar og dregið úr þrengslamyndun í æðum. Eldri rannsóknir hafa sýnt að neysla bláberja getur dregið úr líkum á háum blóðþrýstingi

Þessi rannsókn, eins og fjölmargar aðrar sem sýna tengsl á milli mataræðis sjúkdóma, sannar ekki að orsakasamband sé til staðar. Hugsanlegt er að konurnar sem borðuðu mikið af berjum hafi hreinlega haft almennt heilbrigðari lífsstíl en hinar. Vísindamennirnir benda þó á að fæða sem inniheldur anthocyanin sé líklega mikilvægur þáttur í hollu mataræði, sem helst eigi að innihalda mikið magn af ávöxtum, grænmeti og heilkorni. 


© Axel F Sigurdsson 2012