Greinar

Hvað eigum við að borða hjartað mitt?

20690656 m

Það er óumdeilt að það sem við borðum hefur áhrif á heilsufar okkar og líðan. Jafnvel er líklegt að þáttur mataræðis sé vanmetinn þegar kemur að heilsu og forvörnum. Þegar gefa þarf ráðleggingar um mataræði vandast málið hins vegar því næringarfræði er umfangsmikil og margsnúin fræðigrein og rannsóknir á mataræði og áhrifum þess eru vandasamar. Þess vegna eru fræðimenn ekki alltaf sammála um hvað sé best að borða til að forðast sjúkdóma og halda góðri heilsu.

Mataræði hefur löngum verið talið hafa mikil áhrif á tilurð hjarta-og æðasjúkdóma. Yfirleitt tengjum við hjartasjúkdóma við mikla fituneyslu, steiktan og brasaðan mat, smjör, beikon, saltkjöt, mæjónes og rjóma. Í dag er þó flestum ljóst að þetta er mikil einföldun og að nauðsynlegt er að huga að mörgum öðrum þáttum. Við höfum gjarnan einblínt um of á þýðingu blóðfitunnar enda höfum við lagt ofuráherslu á þýðingu kólesteróls fyrir hjartað og æðakerfið. Þetta hefur orðið til þess að við höfum horft fram hjá ýmsum öðrum mikilvægum þáttum sem skipta máli varðandi tengsl mataræðis við hjarta-og æðasjúkdóma.

Vísindamenn ósammála

Á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar deildu vísindamenn um áhrif mataræðis á tilurð hjartasjúkdóma. Bandaríkjamaðurinn Ancel Keys gerði þekktar faraldsfræðilegar rannsóknir á tengslum mataræðis og hjartasjúkdóma. Niðurstaða hans var sú að mikil neysla mettaðrar fitu og kólesteróls yki hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum.

Rannsóknir Keys voru þó umdeildar og margir samtímamenn hans höfðu aðrar áherslur. Árið 1972 kom út bók eftir breska næringarfræðinginn John Yudkin sem bar heitið „Pure White and Deadly“ þar sem hann lagði áherslu á tengsl milli óhóflegrar sykurneyslu og hjarta-og æðasjúkdóma. Þrátt fyrir að kenningar Yudkins ættu sér marga fylgismenn urðu áherslur Keys ofan á. Nefnd sem stýrt var af bandaríska öldungardeildar-þingmanninum og forsetaframbjóðandanum George McGovern sendi árin 1977 og 1980 frá sér leiðbeiningar um mataræði til bandarísku þjóðarinnar. Þar var lögð áhersla á að draga bæri úr fituneyslu, sérstaklega neyslu mettaðrar fitu og kólesteróls. Þessar leiðbeiningar höfðu mikil áhrif á ráðleggingar lýðheilsuyfirvalda annars staðar á vesturlöndum og segja má að áherslur McGovernnefndarinnar hafi beint almennum ráðleggingum um mataræði í ákveðinn farveg sem haldist hefur allar götur síðan.

Á síðustu þremur áratugum hefur líkamsþyngd aukist hröðum skrefum víðast hvar í heiminum og offita verður sífellt stærra heilsufarsvandamál. Þetta hefur gerst á sama tíma og dregið hefur úr neyslu á fitu. Margir fræðimenn halda því fram að offitufaraldurinn megi að hluta til rekja til óhóflegrar neyslu á sykri, sérstaklega frúktósa og ýmsum viðbættum, óhollum kolvetnum.

Sama gildir ekki fyrir alla

Það kann að vera erfitt og jafnvel vafasamt að gefa einhlítar ráðleggingar um mataræði fyrir alla. Hvaða mataræði er best í hverju tilviki ræðst af þáttum eins og líkamsþyngd, efnaskiptum, blóðfitum, blóðsykri, blóðþrýstingi og undirliggjandi sjúkdómum. Sem dæmi má nefna að einstaklingur sem er of þungur þarf allt aðrar áherslur en sá sem er í eðlilegum holdum. Þá þarf að taka tillit til þess hvort sykursýki eða önnur efnaskiptavandamál eru til staðar eða ekki.

Ef þú ætlar að bæta blóðfiturnar þínar er oftast gagnlegt að draga úr neyslu mettaðrar fitu og kólesteróls. Há blóðfita er áhættuþáttur hjarta-og æðasjúkdóma. Því er ráðlegt að neyta fæðu sem lækkar LDL-kólesteról (vonda kólesterólið) og þríglýseríða. Að sama skapi er talið æskilegt að hækka HDL-kólesteról (góða kólesterólið) sem talið er að hafi verndandi áhrif. Þetta geturðu gert með því að draga úr sykurneyslu og auka hreyfingu.

Ef þú hins vegar glímir við of mikla líkamsþyngd gætirðu verið með svokallað efnaskiptaheilkenni (metabolic syndrome). Margar rannsóknir benda til þess að í slíkum tilvikum sé gagnlegt að draga úr neyslu sykurs og kolvetna og auka fituneyslu.

Orkugjafarnir

Meginorkugjafar okkar eru kolvetni, fita og prótín (eggjahvíta). Mikilvægt er að þekkja þessa fæðuflokka, eðli þeirra og mikilvægi fyrir mataræði okkar. 

Kolvetni. Landlæknisembættið mælir með því að við fáum 50-60 prósent daglegrar orku úr kolvetnum. Mikilvægt er þó að hafa í huga að kolvetni eru ekki öll eins. Æskilegt er að borða flókin kolvetni, ávexti, grænmeti og baunir. Flókin kolvetni má finna í heilkornavörum, rótargrænmeti eins og kartöflum og gulrótum, brúnum hrísgrjónum, og byggi. Þessi kolvetni eru rík af vítamínum, steinefnum og trefjum. Dæmi um heilkornavörur eru rúgbrauð, ýmis önnur brauð úr heilkorni, hafragrjón, heilhveitipasta og hýðishrísgrjón. Ávextir og heilkorn tryggja þér aukið magn af trefjum sem lækkar LDL-kólesteról. Forðastu öll unnin kolvetni eins og hveitibrauð, hveitibakkelsi, kex, kökur, hveitipasta, gosdrykki og sælgæti.

Fita. Fita er lífsnauðsynleg. Mikilvægt er þó að vanda valið á þeirri fitu sem við neytum. Forðastu alfarið transfitu. Transfita verður til við herðingu á ómettuðum fræ- eða jurtaolíum. Olíunni er breytt í fast form með því að hita hana við háan hita og bæta við hana vetnisatómum. Í innihaldslýsingum matvæla eru transfitur oftast einkenndar sem hert fita, jurtaolía eða jurtafeiti. 

Nokkur mikilvæg atriði varðandi mataræði ef þú vilt vernda hjartað og æðakerfið

  • Forðastu viðbættan sykur 
  • Forðastu sælgæti, lakkrís og sykraða gosdrykki 
  • Borðaðu grænmeti oft á dag
  • Borðaðu ávexti 
  • Forðastu unnin matvæli, sérstaklega unnar kjötvörur, kex, kökur og snakk
  • Eldaðu þinn eigin mat og notaðu fersk hráefni
  • Forðastu transfitur 
  • Neyttu dýrafitu og mjólkurfitu í hófi 
  • Borðaðu fisk nokkrum sinnum í viku – gjarnan feitan 
  • Borðaðu heilkorn 
  • Tileinkaðu þér áherslur Miðjarðarhafsmataræðisins

Veldu frekar ómettaðar fitusýrur en mettaða fitu. Mettuð fita er yfirleitt hörð við stofuhita. Fjölómettaðar fitusýrur eins og omega-3 eru taldar hafa jákvæð áhrif á æðakerfið. Þessar fitusýrur er helst að finna í fiskafurðum, sérstaklega í feitum fiski eins og laxi, silungi, síld og makríl. Borðaðu einnig einómettaðar fitusýrur. Þær má finna í hnetum og fituríkum jurtaafurðum eins og ólífum og lárperum (avocado). Ólífuolía er dæmi um olíu sem inniheldur einómettaðar fitusýrur. Veldu mjólkurvörur með lágt fituinnihald, t.d. undanrennu eða fjörmjólk, magra osta og fitulitla jógúrt. Hafðu þó í huga að margar fitusnauðar mjólkurvörur innihalda mikinn sykur sem er óæskilegt.

Prótín. Vandaðu valið á prótínum. Þetta geturðu gert með því að borða mikið af fiski og grænmeti, fremur en rautt kjöt. Það er þó engin ástæða til að forðast rautt kjöt alfarið. Veldu þó frekar magurt kjöt en feitt. Varastu unnar kjötvörur eins og skinkuálegg, hangikjötsálegg og spægipylsu.

Vísindarannsóknir hafa sýnt að Miðjarðarhafsmataræðið og DASH mataræðið hafa jákvæð áhrif á áhættuþætti hjarta-og æðsjúkdóma. Þá hafa rannsóknir sýnt að Miðjarðarhafsmataræðið getur bætt horfur einstaklinga með áhættuþætti hjartasjúkdóma svo og einstaklinga sem fengð hafa kransæðastíflu. 


Nokkur mikilvæg heilræði

Hér að neðan eru nokkur mikilvæg atriði varðandi mataræði ef þú vilt fara vel með hjartað og æðakerfið og draga úr líkum þínum á að fá hjarta-og æðasjúkdóma. 

  • Forðastu viðbættan sykur 
  • Forðastu sælgæti, lakkrís og sykraða gosdrykki 
  • Borðaðu grænmeti oft á dag
  • Borðaðu ávexti 
  • Forðastu unnin matvæli, sérstaklega unnar kjötvörur, kex, kökur og snakk
  • Eldaðu þinn eigin mat og notaðu fersk hráefni 
  • Forðastu transfitur 
  • Neyttu dýrafitu og mjólkurfitu í hófi 
  • Borðaðu fisk nokkrum sinnum í viku – gjarnan feitan 
  • Borðaðu heilkorn 
  • Tileinkaðu þér áherslur Miðjarðarhafsmataræðisins

Ef þú ætlar að breyta mataræðinu er gott að setja sér nokkrar einfaldar grunnreglur sem þú telur þig geta fylgt. Leiðbeiningarnar hér að ofan geta hjálpað þér að bæta mataræði þitt, lækka blóðfitur og draga úr hættunni á hjarta- og æðasjúkdómum. Það einfaldar málið að hugsa um hvern fæðuflokk fyrir sig og velja það sem hentar best í hverjum flokki. Mikilvægt er að mataræðið sé fjölbreytt. Ekki gleyma hreyfingunni, hún er lykillinn að góðri heilsu, sama á hvaða aldri þú ert.

P.S. Ekki gleyma að læka okkur á Facebook

Offita - Einfalt mál eða dularfull ráðgáta?

16640342 m

Á skömmum tíma hefur gríðarleg aukning orðið á tíðni offitu um allan heim. Þessu fylgir mikil aukning á langvinnum sjúkdómum af ýmsu tagi, sykursýki af tegund 2, hjarta-og æðasjúkdómum og Alzheimer sjúkdómi. Sérfræðingar eru agndofa og ráðvilltir enda erfitt að finna einfaldar eða einhlítar skýringar á faraldrinum.

Offita (obesity) er venjulega skilgreind sem líkamsþyngdarstuðull hærri en 30. Ofþyngd (overweight) er skilgreind sem líkamsþyngdarstuðull á milli 25-30.

Á myndinni hér að neðan má sjá að vaxandi tíðni offitu einskorðast ekki við ákveðna heimsluta. Mikla aukningu má sjá alls staðar í heiminum á tæplega 20 ára tímabili. Meðal allra jarðarbúa tvöfaldaðist tíðni offitu á árabilinu 1980-2008. Árið 2008 er talið að 10 prósent karla og 14 prósent kvenna um allan heim hafi verið með offitu. Offita er algengust í Norður-og Suður Ameríku þar sem tíðnin var um 26 prósent árið 2008. Nýleg norræn rannsókn bendir til að tíðni offitu meðal fullorðinna Íslendinga sé á bilinu 17 - 18 prósent. Sama rannsókn sýndi að Íslendingar eru feitastir Norðurandaþjóða. 


Myndin sýnir algengi offiti í ýmsum heimshlutum, árin 1990 og 2008. AFR: Afríka, AMR: Ameríka, SEAR: Suður og austur Asía, EUR: Evrópa, EMR: Miðausturlönd, WPR: Vestur Kurrahafssvæðið, Global: Jarðarbúar allir. Heimild: JACC, Des, 2012


Offita stafar venjulega af aukinni uppsöfnun á fitu í líkamanum sem leiðir til þyngdaraukningar. Margir telja orsök offitu vera afar einfalda. Í hverju einstöku tilviki skýrist offita af því að viðkomandi hefur innbyrt meiri orku (hitaeiningar) en hann hefur brennt. Samkvæmt þessu er lausnin einföld og felst í því að borða minna (færri hitaeiningar) og hreyfa sig meira. 

Afar ólíklegt er þó að offitufaraldurinn sem geysar um allan heim eigi sér svona einfalda skýringu.  Ósennilegt er að skyndilega hafi stór hluti jarðarbúa farið að borða meira og hreyfa sig minna? Skýringin er flóknari og lýtur ekki bara að því hversu mikið við borðum, heldur einnig að því hvað við borðum, hvenær og hvernig. Hreyfing og aðrir þættir lífsstíls okkar skipta einnig máli.

Samfélagslegir þættir koma einnig við sögu. Hegðun okkar og lífsmynstur mótast að miklu leyti af samfélagslegum þáttum. Miklar annir og skyndiákvarðanir geta haft mikil áhrif á matarval okkar. Þetta nýtir matvælaiðnaðurinn sér óspart og skyndibitastaðir af ýmsu tagi blómstra.

Að sjálfsögðu þurfa lýðheilsustofnanir einnig að axla einhverja ábyrgð því óhætt er að segja að faraldurinn hafir orðið til á þeirra vakt og þrátt fyrir að ítarlegar leiðbeiningar um mataræði séu reglulega gefnar út fyrir almenning. 

Við skulum þó fara varlega við að skella skuldinni á yfirvöld, eða aðra yfir höfuð, þegar kemur að holdafari og heilsu. Þegar upp er staðið er ljóst að enginn hefur meiri áhrif á þessa hluti en við sjálf. Við ráðum og veljum hvað við borðum, hversu mikið og hvað oft. Það er einnig á okkar valdi hversu mikið við hreyfum okkur og hversu miklum tíma við verjum í sófanum eða hægindastólnum.

16336463 m

Að vikta sig reglulega og fylgjast með eigin holdafari ætti að vera jafn sjálfsagt og að bursta tennurnar.

Íslendingar geta reyndar að mörgu leyti verið býsna stoltir af sinni lýðheilsu  Lífslíkur eru háar hér á landi. Við erum í sjöunda sæti á lista yfir þjóðir með hæstu lífslíkurnar. Japanir eru í efsta sæti, þar á eftir koma Svisslendingar, Ítalir, Spánverjar, Ástralir og Ísraelsbúar. Þegar kemur að reykingum, sem eru sennilega mesti heilsuskaðvaldur nútímans, geta Íslendingar verið býsna sáttir. Fjöldi Íslendinga sem reykir er rúmlega 14 prósent og erum við þar meðal þeirra lægstu í heimi. Hlutfall þeirra sem reykja í OECD löndunum er 21.1 prósent að meðaltali. Svíar eru lægstir Norðurlandaþjóða en alþekkt er hins vegar að fáir nota meira munntóbak en þeir.

Nokkuð ljóst er að besta leiðin til að sigrast á offituvandanum eru forvarnir. Margoft oft hef ég séð einstaklinga vakna upp af vondum dvala, 10-20 kílóum þyngri en 5-10 árum áður. Oft virðumst við hreinlega sofna á verðinum og gleyma hvað lífsstíll okkar ræður mikilu um holdafar okkar og heilsu. Að vikta sig reglulega og fylgjast með eigin holdafari ætti að vera jafnsjálfsagt og að bursta tennurnar.

Þegar einstaklingur er orðinn of feitur er oft erfitt að snúa ferlinu við. Bandarískar rannsóknir sýna að 80-90 prósent þeirra sem ná að léttast, þyngjast aftur og verða jafnvel enn þyngri en áður en megrunin hófst. Til þess að ná varanlegum árangri þarf einbeittan vilja og skilning á vandanum og því sem þarf að gera. 

Aukinn þekking á tilurð offitu, fræðsla til almennings um mataræði, hreyfingu og heilbrigða lífshætti er fyrsta skrefið í baráttnni við offitufaraldurinn. Rannsóknir hafa sýnt að 77 prósent af börnum sem eru of feit munu þjást af offitu á fullorðinsárum en aðeins 7 prósent af börnum með eðlilega líkamsþyngd. Ef forða á næstu kynslóð frá offituvandanum þarf gríðarlegt samfélagsátak sem ekki síst þarf að beinast að börnum og unglingum. Fræðsla um heilbrigt mataræði, hollustu og mikilvægi hreyfingar þarf að byrja strax í barnæsku.

"I wish for everyone to help create a strong, sustainable movement to educate every child about food, inspire families to cook again and empower people everywhere to fight obesity".  

                                                                                                      Jamie Oliver 2010

Sléttfull matskeið af sykri gerir meðalið svo gott...

18161950 m

Við höfum næstum óendanlega valkosti þegar kemur að því að velja það sem við leggjum okkur til munns. Við getum borðið afurðir bæði úr jurta-og dýraríkinu, fisk, kjöt, ávexti, grænmeti, ferskar matvörur, unnar matvörur, brauð, súkkulaði, egg, fitu eða sykur. Valið er endalaust. Meltingarfæri okkar eru fjölhæf og sýna ótrúlega hæfni til að bregðast við ýmsum óvæntum gestum. Við erum ekki eins og risaeðlurnar forðum daga sem annað hvort voru kjötætur eða jurtaætur. Maðurinn er alæta

Hin mikla fjölbreytni sem ríkir í matvælaúrvali á vesturlöndum gerir okkur lífið þó ekki alltaf auðveldara. Mikið úrval getur skapað valkvíða. Flest okkar vita að við eigum helst ekki bara að borða það sem okkur finnst gott. Við þurfum að tryggja að við fáum öll tilskilin næringarefni og alþekkt er að sumur matur er "hollari" en annar. Hvar hollustuna er að finna liggur þó ekki alltaf í augum uppi. Þetta "lúxusvandamál" vesturlandabúa tekur Banadaríkjamaðurinn Michael Pollan fyrir á skemmtilegan hátt í bók sinni "The Omnivore Dilemma" eða "Ógöngur alætunnar". Meginþema bókarinnar er spurningin; "Hvað eigum við að hafa í kvöldmat?" Einföld spurning þótt Pollan takist að gera svarið einstaklega flókið. 


Lýðheilsa og leiðbeiningar um mataræði

Lýðheilsufræði eru vísindi sem fjalla um hvernig fyrirbyggja á sjúkdóma og bæta heilsu með aðferðum sem ná til samfélagsins alls eða samfélagshópa. Í ljósi þess að mataræði hefur afgerandi áhrif á heilsu okkar er ekki að undra að þeir sem hafa þann starfa að huga að lýðheilsu skuli hafa skoðun á því hvað við eigum að borða. Alþekkt er að lýðheilsuyfirvöld á vesturlöndum gefa reglulega út leiðbeiningar um mataræði til þegna samfélagsins í því skyni að bæta heilsu samfélagsins. 

Í ljósi þess að hjarta-og æðasjúkdómar hafa verið algengasta dánarorsökin á vesturlöndum um árabil er ekki að undra að opinberar leiðbeiningar um mataræði hafi beinst mest að því að draga úr vægi þessarra sjúkdóma í samfélaginu. Flest okkar þekkja boðskap lýðheilsuyfirvalda í þessu samhengi. Ríkuleg áhersla hefur verið lögð á að draga úr neyslu mettaðrar fitu. Þessi fita er oft nefnd hörð fita og er hana helst að finna í dýraríkinu, aðallega í kjöti og mjólkurvörum. Þá hafa þessar ráðleggingar oftast hvatt til ríkulegrar kolvetnaneyslu þót yfirleitt alltaf sé varað við mikilli neyslu á unnum sykri. Þessar ráðleggingar hafa fengið stuðning virtra samtaka lækna-og næringarfræðinga víða um heim.

Nýlega ritaði ungur breskur hjartalæknir Asheem Malhotra grein í hið virta breska læknatímarit, British Medical Journal þar sem hann tekur þessi efni til umfjöllunar. Grein Malhotra hefur vakið mikla athygli þótt ekki sé að finna þar mikinn nýjan sannleik. Greinin bergmálar hins vegar raddir sem hafa gerst sífellt háværari um að lýðheilsuyfirvöld séu á villigötum þegar kemur að leiðbeiningum um mataræði. 

Ljóst er að margir fræðimenn eru ósammála Malhotra. Hins vegar er athyglsivert að rödd hans hefur fengið áheyrn í svo virtu læknisfræðitímariti því oftast hafa þeir sem gagnrýnt hafa ríkjandi leiðbeiningar og kenningar þurft að tjá sig á öðrum vettvangi.

Fitur og hjartað

Fræðimenn eru almennt sammála um að transfita, sem oft er að finna í skyndimat, kexi, kökum og smjörlíki, auki líkur á hjarta-og æðasjúkdómum. Malhotra bendir hins vegar á að "þulan" um að minnka þurfi neyslu á mettaðri fitu hafi verið megináhersluatriði í leiðbeiningum lýðheilsuyfirvalda um mataræði um áratugaskeið. Athyglisvert er að í bæklingi Lýðheilsustöðvar um mataræði frá 2006 er mettuð fita og transfita sett í sama flokk sem er afar villandi og beinlínis rangt eins og áður hefur verið bent á hér.

Malhotra telur að ráðleggingar um að draga úr neyslu mettaðrar fitu hafi beinlínis aukið hættuna á hjarta-og æðasjúkdómum. Þá telur hann einnig að ofuráhersla lýðheilsuyfirvalda á að lækka kólesterólmagn í blóði hafi leitt til þess að milljónir manns séu að óþörfu meðhöndlaðir með blóðfitulækkandi lyfjum.

Meginástæða þess að mettuð fita hefur verið talin auka líkur á hjarta-og æðasjúkómum er að neysla slíkrar fitu er talin hækka magn LDL-kólesteróls ("vonda" kólesterólið) í blóði. Malhotra bendir hins vegar á að neysla mettaðrar fitu hækki magn stórra LDL-prótína á meðan það séu fyrst og fremst lítil LDL-prótín sem auki hættuna á hjartasjúkdómum. Magn lítilla LDL-prótína aukist hins vegar við ríkulega kolvetnaneyslu.

Malhotra bendir á þekkta samantekt á rannsóknum á neyslu mettaðrar fitu sem ekki bendir til þess að slík neysla auki hættuna á hjarta-og æðasjúkdómum. Þá bendir hann á að neysla unninnar kjötvöru sé líklegri til að tengjast aukinni hættu á hjarta-og æðasjúkdómum en neysla á rauðu kjöti eða feitum mjólkurvörum.


Sléttfull matskeið af sykri gerir meðalið…..

maryPoppins

"Sléttfull matskeið af sykri gerir meðalið svo gott…", syngur Mary Poppins. Auðvitað er um líkingamál að ræða og endurspeglar textinn tilraunir Mary Poppins til að fá Banks fjölskylduna til að skilja mikilvægi gleðinnar og þess að sameinast í leik. Athyglisvert er þó að við skulum sjá samlíkingu með sykri og gleði en það er hins vegar eitthvað sem gosdrykkjaframleiðendur eins og Coca Cola hafa nýtt sér óspart um áratuga skeið. Hamingja og glaðværð fylgir þeim sem drekka gosdrykkinn fræga, a.m.k. ef dæma má af auglýsingunum.

Malhotra bendir á að þegar lýðheilsuyfirvöld hvöttu til minni fituneyslu hafi matvælaframleiðendur neyðst til að framleiða fitusnauð matvæli. Leiðin sem þeir notuðu til að bragðbæta slíka matvöru hafi verið að bæta í hana sykri. Malhotra telur nýlegar vísindaniðurstöður benda til þess að sykurneysla auki sterklega líkur á offitu, efnaskiptavillu, háþrýstingi, blóðfituröskunum og sykursýki.


Hjarta-og æðasjúkdómar - mikilvægi kólesteróls

Það er liðin rúm hálf öld síðan fyrst var bent á tengsl hækkaðs kólesteróls við hættuna á kransæðasjúkdómi. Síðan þá hefur margt breyst. Í dag hafa tveir þriðju þeirra sem fá kransæðastíflu merki um efnaskiptavillu. Um þrír fjórðu þessarra sjúklinga hafa eðlilegt kólesterólmagn í blóði. Malhotra telur að hátt kólesteról sé ekki meginvandi þessarra einstaklinga.

Malhotra talar tæpitungulaust þegar kemur að notkun blóðfitulækkandi lyfja (statin-lyf). Statin-lyf eru mest ávísuðu lyfin í Bandaríkjunum og standa undir iðnaði sem veltir svo háum upphæðum að tilgangslaust væri að nefna þær hér. Í Bretlandi eru um 8 milljónir manns á statin-lyfjum. Malhotra telur að minni tíðni reykinga og tilkoma bráðra kransæðavíkkana eigi meiri þátt en statin-lyf í lækkandi dánartíðni vegna hjarta-og æðasjúkdóma.

Þá bendir Malhotra á nýlega rannsókn á 150.000 einstaklingum sem sýndi háa tíðni aukaverkana meðal einstaklinga sem taka statin-lyf. Þessi tíðni er mun hærri en lyfjafyrirtækin almennt gefa í skyn og mun hærri en margir læknar gera sér grein fyrir. 

Ýmsir hafa bent á að gagnsemi statin-lyfja er afar lítil þegar þau eru gefin heilbrigðum einstaklingum í fyrirbyggjandi tilgangi. Hins vegar sýndi nýleg rannsókn að Miðjarðarhafsmataræði getur lækkað hættu á hjarta-og æðaáföllum um 30 prósent meðal einstaklinga með aukna áhættu. Áhrif Miðjarðarhafsmataræðisins á dánartíðni eru um þrisvar sinnum meiri en áhrif statin-lyfja í rannsóknum á svipuðum hópum einstaklinga. 

Malhotra telur að kúvending núverandi leiðbeininga um mataræði sé nauðsynleg til að koma réttum skilaboðum til almennings. Núverandi leiðbeiningar hafi þegar valdið skaða og ýtt undir offitufaraldurinn sem nú herjar á þjóðir vesturheims.

P.S. Ekki gleyma að læka okkur á Facebook

Varað við lágkolvetnamataræði


3397763 m

Lágkolvetnamataræði er vinsælt fréttaefni um þessar mundir og var tekið til sérstakrar umfjöllunar í sjónvarpsfréttum RUV fyrr í kvöld. Margir sérfræðingar hér á landi telja sérstaka ástæðu til að vara við þeirri þróun sem átt hefur sér stað samfara vaxandi vinsældum þessa mataræðis. Áður hafa sænskir sérfræðingar bent á, í umdeildri blaðagrein, að lágkolvetnamataræði sé ógn við lýðheilsu í Svíþjóð.


Umfjöllun RUV

"Ingibjörg Gunnarsdóttir prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands segir að lágkolvetnalíffstíll sá sem nú er í tísku sé bóla sem geti haft óæskileg áhrif á heilbrigði þjóðarinnar. Lágkolvetnamataræði sé meðferðarúrræði sem henti takmörkuðum hópi fólks og sé engin allsherjarlausn fyrir almenning. 

Lágkolvetnamataræði inniheldur eins og nafnið gefur til kynna lítið af kolvetnum. Þetta mataræði er talið gott vopn í baráttunni við aukakílóin og meðal annars er þeim sem kljást við offitu ráðlagt að taka það upp. Þá eru kolvetnin tekin út og fitu bætt inn í staðinn.

Margir hafa gagnrýnt hvernig faglegar ráðleggingar um þetta mataræði hafa breyst í markaðssetningu á lágkolvetnalífsstíl sem allsherjarlausn fyrir hvern sem er, en að þetta henti í raun takmörkuðum hópi fólks í skamman tíma, enda virðast alls kyns lágkolvetnakúrar fara eins og eldur í sinu um þjóðfélagið. Lífsstíls-og mataræðisbækur seljast grimmt en eru þó mjög umdeildar og fjöldi lágkolvetnaklúbba eru á netinu. Þetta gengur svo langt að sjáanleg aukning er í sölu á smjöri og rjóma."

Ingibjörg segir: "Þetta er kynnt sem lífsstíll en í raun og veru er þetta meðferðarúrræði. Þetta er kannski svona sambærilegt eins og að senda alla þjóðina á blóðþrýstingslækkandi lyf."

Ingibjörg segir sjálf aldrei myndi setja fólk á þennan kúr nema hafa í kringum sig fagfólk sem gæti haldið vel utan um viðkomandi. Hún sé þó ekki að gera lítið úr meðferðinni sem slíkri og gott ef fólk á lágkolvetnafæði sé að léttast, en þegar fólk sé farið að túlka hlutina eins og því sýnist sé það að bóða hættunni heim. 

Ingibjörg bætir við: "og fara að taka út úr þessu rjómann og beikonið og bæta því á sitt hefðbundna fæði… og er það þá gott? Við höfum ekkert í höndunum og meira að segja það mikið í höndunum til að sýna fram á að það geti bara hreinlega verið skaðlegt."


Hvenær er lágkolvetnamataræði meðferðarúrræði?

Lágkolvetnamataræði hefur verið mér hugleikið um skeið vegna starfa minna sem læknir. Á síðustu árum hef ég upplifað mikla aukingu á offitu og heilsufarsvandamálum sem henni fylga, svo sem sykursýki af tegund 2, háþrýstingi og blóðfituröskun.

Í grein sem ég birti hér á síðunni fyrr í haust skrifaði ég:  "Ég mæli einungis með lágkolvetnamataræði fyrir þá sem eru of þungir og þurfa að léttast, einstaklinga sem glíma við efnaskiptavillu, sykursýki af tegund -2, eða háþrýsting sem rekja má til ofþyngdar eða offitu."

Samkvæmt norrænni könnun sem birt var fyrir ári síðan eru 57.1 prósent fullorðinna Íslendinga yfir kjörþyngd, 17.1 prósent þjást af offitu (BMI > 30) og 39.3 prósent hafa ofþyngd (BMI 25.0 - 29.9). 

Nýlega birtu sænskir sérfræðingar ítarlega skýrslu um notkun mataræðis eða matarkúra fyrir einstaklinga sem þjást af offitu. Sérfræðingarnir fóru yfir 16.000 greinar sem innihalda niðurstöður vísindarannsókna um þetta efni og hafa verið birtar í fagtímaritum. Niðurstaðan var sú að lágkolvetnamataræði skilaði bestum árangri, borið saman við aðrar aðferðir hvað varðar þyngdartap þegar horft var til sex mánaða. Í skýrslu sérfræðinganna er sérstaklega tekið fram að ekki sé ástæða til að ætla að lágkolvetnamataræði sé skaðlegt fyrir heilsuna.

Umfjöllun RUV vakti athygli mína fyrir margra hluta sakir. Ábending Ingibjargar um að lágkolvetnamataræði sé ekki fyrir allan almenning er sannarlega þörf og mikilvæg. Hins vegar kemur mér nokkuð á óvart að hún virðist líta á þessa meðferð sem varasama, jafnvel fyrir þá sem gætu haft gagn af henni, eins og um væri að ræða lyf með hættulegar aukaverkanir.

Ingibjörg dregur fram í dagsljósið hættuna á misskilningi þegar kemur að umfjöllun og markaðssetningu í tengslum við mataræði. Þetta er mikilvægt atriði sem rétt er að hafa í huga. Sannarlega hlýtur að vera óæskilegt að bæta rjóma og beikoni ofan á hefðbundið mataræði. Það hefur þó auðvitað ekkert að gera með lágkolvetnamataræði.

Hins vegar finnst mér fagfólk oft reyna að draga fram ranga mynd af lágkolvetnamataræði. Þótt fituneysla sé aukin er alls ekki nauðsynlegt að auka neyslu á beikoni og rjóma. Annars konar fitu má finna víða í dýra-og jurtaríkinu. Í nýlegum norrænum ráðleggingum um mataræði er einmitt bent á að við höfum val þegar kemur að fituneyslu og getum hæglega valið fitur sem almennt eru skilgreindar sem hollar, einómettaðar eða fjölómettaðar. Hins vegar hafa engar vísindarannsóknir sýnt fram á að beikon eða rjómi sé skaðlegt heilsunni, en það er önnur saga.

Hafandi í huga að lágkolvetnamataræði er viðurkennd meðferð við offitu er ljóst að rúmlega 17 prósent fullorðinna Íslendinga gætu nýtt sér þessa leið til að léttast. Væri ekki ráð fyrir lýðheilsuyfirvöld, næringarfræðinga og lækna, í stað þess að sá efasemdarfræjum og ótta meðal fólks, að gefa leiðbeiningar um lágkolvetnamataræði og notagildi þess. Í þessu gætu falist ráð um hvað á að borða mikið af kolvetnum, hvaða kolvetni á að velja, hversu mikla fitu á að borða og hvaða fitu á að velja. Jafnframt væri skynsamlegt að leiðbeina um hvernig best er að tryggja inntöku nauðsynlegra vítamína og steinefna, hvernig á að bregðast við vökvatapi, saltskorti og öðru sem getur fylgt sérstaklega í byrjun.

í ljósi núverandi þekkingar hlýtur það að vera skylda lækna og annars fagfólks sem sinnir einstaklingum með offitu, ofþyngd eða efnaskiptavillu að upplýsa um meðferð sem rannsóknir benda til að gefi bestan árangur þegar kemur að því að léttast og ekki hefur verið sýnt fram á að sé skaðleg heilsunni. Annað væri óábyrgt. Fagkólki ber að fræða um mismunandi meðferðarleiðir, kosti þeirra og galla. Að öðrum kosti getur einstaklingurinn ekki tekið upplýsta ákvörðun um hvaða leið hann vill fara.

P.S. Ekki gleyma að læka okkur á Facebook

© Axel F Sigurdsson 2012