Hvað á maður að borða mikið af eggjum? | Mataræði.is

Hvað á maður að borða mikið af eggjum?

3810133 m

Veistu hvað er best að borða mikið af eggjum? Það er ólíklegt. Sennilega veit það enginn. Hins vegar er ljóst að á síðustu árum hefur þróast meðal okkar einhvers konar hræðsla við að borða egg. Ástæðan fyrir því er að egg innihalda mikið af kólesteróli. 

Lengi vel hefur verið mælt með því að dagleg neysla kólesteróls fari ekki yfir 200 - 300 milligrömm. Eitt egg inniheldur sennilega um 180 - 200 milligrömm af kólesteróli. Þetta kólesteról er aðallega í eggjarauðunni. Það er því ljóst að þú getur ekki borðað mikið af eggjum ef þú ætlar að halda þig við ofangreindar ráðleggingar. 

Á undanförnum árum hefur hins vegar komið í ljós að kólesteról í fæðu hefur mun minni áhrif á kólesterólið í blóðinu en talið var. Mjög lítið af því kólesteróli sem þú borðar fer út í blóðrásina þína. Lifrin okkar framleiðir kólesteról. Sumir fræðimenn hafa sagt að ef við borðum mikið af kólesteróli framleiði lifrin hreinlega minna af því og ef við borðum lítið kólesteról framleiði lifrin hreinlega meira. Það skipti því hreinlega engu máli hvað við borðum mikið af kólesteróli. Þótt þessi kenning sé kannski ekki fyllilega sönnuð er margt sem bendir til þess að þú þurfir ekki að hafa áhyggjur af því að hófleg neysla á eggjum hafi slæm áhrif á blóðfiunar þínar. Ekki hefur verið sýnt fram á að neysla á eggjum auki líkur á hjarta-og æðasjúkdómum. 

Svo virðist sem neysla á mettaðri fitu sé mun líklegri til að hafa óæskileg áhrif á blóðfituna en neysla á kólesteróli. Egg innihalda tiltölulega lítið af mettaðri fitu en talsvert af einómettuðum og fjölómettuðum fitusýrum sem taldar eru hollar. Það skiptir hins vegar verulegu máli upp á hollustuna hvernig þú matreiðir eggin og með hverju þú borðar þau. Einfaldast og best er að sjóða eggin, engin ástæða er til að steikja þau í feiti.  Láttu beikonið eiga sig, a.m.k. ef þú vilt reyna að forðast mettaða fitu eða ef þú ert að reyna að bæta blóðfituna. 

Egg eru mjög næringarrrík. Þau  innihalda mikið af prótínum, hollum fitusýrum og vítamínum. Þau eru t.d. rík af D-vítamíni. Engin kolvetni eru í eggjum. Þau innihalda talsvert magn af choline sem er mikilvægt næringarefni. Nýlegar rannsóknir benda til að skortur á choline sé fremur algengur. Choline er talið draga úr bólgum. Eitt egg inniheldur 25% af deglegri þörf okkar fyrir choline. 

Egg eru tiltölulega mettandi. Egg geta hjálpað þér að léttast, m.a. vegna þess að ólíklegra er að þú neytir óhollra kolvetna ef þú hefur borðað egg, t.d. í morgunmat. 

Niðurstaðan er sú að egg eru holl og næringarrík fæða. Þau eru mettandi og góður orkugjafi. Þú átt með góðri samvisku að geta borðað eitt egg á dag. 

© Axel F Sigurdsson 2012