Margir sérfræðingar telja DASH mataræðið gott dæmi um fjölbreytt mataræði þar sem lögð er ríkuleg áhersla á hollustu og forvarnir gegn sjúkdómum. Mataræðið byggir á sterkum vísindalegum grunni og fæðuval styðst við gagnreynda næringarfræði. Virtar stofnanir eins og National Institute of Health og American heart Association hafa mælt með DASH mataræðinu.
DASH stendur fyrir Dietary Approach to Stop Hypertension og vísar til þess að mataræðið var upphaflega hugsað til þess að lækka blóðþrýsting hjá einstaklingum með háþrýsting. DASH rannsóknin var birt árið 1997 í New England Journal of Medicine og vakti mikla athygli enda sýndi hún fram á að mataræðið lækkaði blóðþrýsting marktækt hjá einstaklngum með háþrýsting.
DASH mataræðið gerir ráð fyrir að 25% daglegrar heildarorku sé í formi fitu, þar af 6% í formi mettaðrar fitu, 18% í formi eggjahvítu og 55% í formi kolvetna. Megináhersla er lögð á að draga úr neyslu á fitu, sérstaklega mettaðri fitu og kólesteróli. Jafnframt er lögð áhersla á ríkulega neyslu á ávöxtum, grænmeti, trefjum og fitusnauðum mjólkurvörum. Ekki er mælt með neyslu á rauðu kjöti en fuglakjöt eins og kjúklingur og kalkúnn er leyft svo og fiskur. Neysla á natriumsalti er lág en mælt er með hlutfallslega mikilli neyslu kalíumsalts, magnesíum og kalks.
Megináherslur DASH mataræðisins
Borðaðu mikið af grænmeti og ávöxtum
Borðaðu mikið af trefjjum
Borðaðu fitusnauðar mjólkurvörur
Borðaðu fisk, kjúkling og egg (í hófi þó)
Borðaðu hlutfallslega mikið af kalíum, magnesíum og kalki
Borðaðu heilkorn (brauð, hrísgrjón, pasta), hnetur og baunir (t.d. linsubaunir)
Forðastu rautt kjöt
Forðastu fitu, sérstaklega mettaða fitu og kólesteról
Borðaðu lítið af natrium salti
Forðastu sælgæti og gosdyrykki
Neyttu áfengis í hógi