Vefurinn er í umsjá Axels F. Sigurðssonar hjartalæknis.
Axel er starfandi hjartalæknir á Landspítala Háskólasjúkrahúsi og í Hjartamiðstöðinni, Holtasmára 1 í Kópavogi.
Hann er sérfræðingur í lyflækningum og hjartalækningum. Hann lauk embættisprófi frá Læknadeild Háskóla Íslands 1984. Hann stundaði sérfræðinám við Sahlgrenska/Östra háskólasjúkrahúsið í Gautaborg 1988-1995 og við Royal Jubilee Hospital í Victoria BC í Kanada 1995-1996. Axel hlaut doktorsgráðu frá Gautaborgarháskóla 1993. Hann hefur starfað sem sérfræðingur í hjartalækningum við Landspítala Háskólasjúkrahús frá 1996 með megináherslu á kransæðasjúkdóma, kransæðavikkanir og hjartabilun. Hann hefur verið stundakennari við læknadeild Háskóla Íslands frá 1996, við lyfjafræðideild Háskóla Íslands 1996-2002 og við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands frá 2003. Axel var formaður Hjartasjúkdómafélags íslenskra lækna (Icelandic Cardiac Society) 2004-2006 og í stjórn sama félags 2001-2010. Hann hefur birt rúmlega 100 ágrip og fræðigreinar í innlendum og erlendum vísindaritum og kennslubókum.

"Ég hef nú starfað sem hjartalæknir í tuttugu ár. Á þessum tíma hef ég upplifað stórstígar framfarir í greiningu og meðferð hjartasjúkdóma á sama tíma og lífsgæði og horfur hafa batnað mikið. Ég hef líka uppgötvað hversu stórkostlega möguleika við sjálf höfum til að hafa áhrif á heilsu okkar og vellíðan. Slíkar leiðir, sem oft ganga undir nafninu forvarnir, eru því miður oft vannýttar. Með heilbrigðu líferni, hollu mataræði og hreyfingu má bæta líðan og lífsgæði verulega og koma í veg fyrir sjúkdóma. Þetta kann að hljóma einfalt en reynist þó mörgum erfitt. Auk þess liggur ekki alltaf í augum uppi hvaða leiðir á að fara enda getur það verið einstaklingsbundið. Þekking er því nauðsynleg ef þú vilt tileinka þér hollustu og heilbrigðan lífstíl. Þetta var kveikjan að mataræði.is."
Janúar 2012
Axel F. Sigurðsson læknir